Handbolti

Elliði hélt upp á afmælið sitt með geggjuðu sirkusmarki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson er að gera flotta hluti á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.
Elliði Snær Viðarsson er að gera flotta hluti á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. HSÍ

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson er á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku og hann er að gera flotta hluti undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach.

Elliði Snær Viðarsson átti mjög góðan leik um síðustu helgi í uppgjöri gömlu stórveldanna Gummersbach og HSV Hamburg í þýsku b-deildinni í handbolta.

Elliði Snær og félagar klikkuðu ekki á þessu prófi heldur unnu 26-25 sigur í æsispennandi leik sem þýðir að Guðjón Valur Sigurðsson er með liðið sitt á toppnum í deildinni.

Guðjón Valur sótti Elliða Snæ út í Vestmannaeyjar og sér örugglega ekki eftir því í dag en strákurinn átti sinn besta leik á tímabilinu um helgina.

Elliði Snær skoraði fimm mörk úr fimm skotum í leiknum en það var þó eitt marka hans sem stóð upp úr.

Elliði skoraði nefnilega glæsilegt sirkusmark eins og Gummersbach vakti athygli á inn á samfélagsmiðlum sínum.

Það má sjá þetta geggjaða sirkusmark Eyjamannsins hér fyrir neðan.

Elliði Snær hélt annars upp á 22 ára afmælið sitt um helgina og það var því ekki slæmt að skora svona sirkusmark í tilefni afmælisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×