Enski boltinn

Deschamps: Pogba getur ekki verið ánægður hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba hefur bara verið fimm sinnum í byrjunarliði Manchester United á leiktíðinni.
Paul Pogba hefur bara verið fimm sinnum í byrjunarliði Manchester United á leiktíðinni. EPA-EFE/Oli Scarff

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, tjáði sig um stöðu Paul Pogba hjá Manchester United á blaðamannafundi í gær en franska liðið er nú að undirbúa sig fyrir komandi landsleiki.

Paul Pogba hefur oftar en ekki þurft að byrja á varamannabekknum í leikjum Manchester United liðsins í vetur og svo var einnig á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Pogba hefur spilað ellefu leiki með United á leiktíðinni en aðeins byrjað fimm þeirra.

Pogba kom ekki inn á völlinn fyrr en á 82. mínútu í 3-1 sigri á Everton á Goodison Park um helgina en Manchester United þurfti nauðsynlega á þeim sigri að halda. Átta mínútur er vandræðalega lítið fyrir leikmann eins og Pogba sem oftar en ekki hefur þótt tilheyra hópi bestu miðjumanna heims.

Hann er fastamaður hjá franska landsliðinu og landsliðsþjálfarinn ræddi sinn mann við fjölmiðla í gær.

„Hann er í aðstöðu hjá félaginu sínu þar sem hann getur ekki verið ánægður, hvorki með spilatíma eða hvar hann er að spila á vellinum,“ sagði Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins.

„Hann er ekki í sínu besta formi, hefur verið óheppinn með meiðsli og fékk síðan kórónuveiruna sem tók mjög á hann. Hann þarf að finna taktinn sinn,“ sagði Deschamps.

„Ég hef ekki áhyggjur af honum. Þegar leikmanni líður illa hjá félaginu sínu þá er hann vanalega mjög ánægður með að spila fyrir landsliðið sitt. Hann segir mér frá tilfinningum sínum og ég þekki hann mjög vel. Þetta mun fara í jákvæða átt,“ sagði Deschamps.

Manchester United borgaði Juventus 89 milljónir punda fyrir Paul Pogba árið 2016. United nýtti sér klásúlu í samningnum hans og framlengdi hann til ársins 2022. Þá verður hann 29 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×