Enski boltinn

Gat ekki lofað Jota byrjunarliðssæti þrátt fyrir þrennuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diogo Jota fékk að sjálfsögðu að eiga boltann eftir að hafa skorað þrennu gegn Atalanta í gær.
Diogo Jota fékk að sjálfsögðu að eiga boltann eftir að hafa skorað þrennu gegn Atalanta í gær. getty/Emilio Andreoli

Þrátt fyrir að hafa skorað þrennu í 0-5 sigri Liverpool á Atalanta í gær er Diogo Jota ekki öruggur með að byrja næsta leik Rauða hersins sem er gegn Manchester City á sunnudaginn.

Jota hefur farið frábærlega af stað með Liverpool og skorað í fjórum leikjum í röð, alls sex mörk. Portúgalinn hefur allt í allt skorað sjö mörk á tímabilinu og er næstmarkahæsti leikmaður Liverpool á eftir Mohamed Salah sem hefur skorað níu mörk.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi þó ekki lofa Jota sæti í byrjunarliðinu í næsta leik Englandsmeistaranna.

„Það er mikilvægt að hafa fleiri en ellefu leikmenn og í kvöld lék Diogo frábærlega. Hann byrjaði í kvöld, bæði vegna þess hversu vel hann hefur spilað og vegna þess hvernig Atalanta spilar og verst. Það var því rökrétt að nota hann,“ sagði Klopp eftir leikinn í Bergamo í gær.

Á meðan Jota hefur skorað sjö mörk í vetur er Roberto Firmino, aðalframherji Liverpool, aðeins með eitt mark. Klopp ítrekaði samt mikilvægi Brasilíumannsins eftir leikinn í gær.

„Góð frammistaða færir mér ekki jákvæðan höfuðverk. Við værum ekki einu sinni í Meistaradeildinni ef ekki væri fyrir Firmino. Þrátt fyrir það þarf ég að útskýra af hverju hann er ekki í liðinu,“ sagði Klopp.

„Hann verður í liðinu og svarið við spurningunni af hverju Liverpool er svona gott suma daga er vegna þess hvernig Firmino spilar. Á góðum degi er ómögulegt að verjast honum.“

Liverpool hefur unnið alla þrjá leiki sína í Meistaradeildinni án þess að fá á sig mark og er í afar vænlegri stöðu í D-riðli. Þá er Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir

Sýning hjá Liverpool í Bergamo

Liverpool gerði góða ferð og rúmlega það til Bergamo á Ítalíu í kvöld en ensku meistararnir burstuðu Atalanta 5-0 í D-riðli Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×