Innlent

Ekkert bendi til saknæms athæfis í tengslum við húsbílabrunann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla á Suðurlandi rannsakar brunann.
Lögregla á Suðurlandi rannsakar brunann. Vísir/Vilhelm

Ekki eru vísbendingar um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað í tengslum við húsbílabruna í Grafningi í byrjun þessa mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi. Karlmaður á fertugsaldri lést í brunanum.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að nú sé m.a. beðið niðurstöðu rannsóknar tæknideildar á eldsupptökum, sem og niðurstöðu úr krufningu. Hann býst við að bið eftir þessum niðurstöðum verði talsvert löng, einhverjar vikur. 

Bráðabirgðaniðurstöður úr krufningu á manninum sem lést í brunanum bentu til þess að hann hefði látist úr súrefnisskorti. 

Eldurinn kviknaði í húsbílnum föstudaginn 9. október. Greint var frá því í kjölfar brunans að enginn hjá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hefði svarað áframsendu símtali vegna brunans frá Neyðarlínunni á föstudagskvöld. Innhringjandi gafst upp eftir 57 sekúndur. Hönnunargalli í tölvukerfi neyðarlínunnar, sem sagður var hafa valdið því að símtalið skilaði sér ekki til lögreglu, var lagaður í kjölfarið.


Tengdar fréttir

Nafn mannsins sem lést í hús­bíla­bruna í Grafningi

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur með rannsókn sinni staðfest að líkamsleifar manns sem lést í bruna í húsbíl í landi Torfastaða í Grafningi séu af Einari Jónssyni sem fæddur var þann 21. ágúst 1982.

Þrír hundar mannsins brunnu inni í húsbílnum

Karlmaðurinn sem lést í eldsvoða í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu á föstudagskvöld bjó þar á meðan hann safnaði sér fyrir landi þar sem hann langaði til að búa með hundunum sínum þremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×