Viðskipti erlent

Grænmetisborgarar í hættu í Evrópu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hér má sjá vinsælan grænmetisborgara.
Hér má sjá vinsælan grænmetisborgara. Getty

Fyrirtækjum gæti verið bannað að markaðssetja vörur sínar sem grænmetisborgara eða grænmetispylsur innan Evrópusambandsins. Evrópuþingið greiðir atkvæði um tillögu þess efnis eftir helgi.

Sérvörur hugsaðar fyrir grænkera og grænmetisætur gætu þurft að breyta um nafn ef tillagan er samþykkt. Nú þegar er bannað að kalla vörur vegan-osta eða plöntumjólk en til stendur að ganga lengra og meina framleiðendum að selja vörur undir heitum á borð við ostalíki, jógúrtlíki eða grænmetisborgari.

The Guardian greindi frá því að þrýstihópur úr röðum kjöt- og mjólkuriðnaðarins berjist fyrir breytingunni en sala og framleiðsla á sérstökum vegan- og grænmetisvörum hefur stóraukist á undanförnum árum. Þrýstihópurinn segir að með því að kalla vörur sínar til dæmis pylsur, borgara og steikur séu framleiðendur bæði að afvegaleiða neytendur og að stela menningu kjötiðnaðar.

Stórfyrirtæki á matvælamarkaði, til að mynda Unilever og Nestlé, sem eiga samtals á þriðja þúsund vörumerkja, hafa lagst gegn tillögunni. Andstæðingar hennar hafa sagt fráleitt og út í hött að merkingar sem þessar afvegaleiði neytendur. 

Þá væri bann í þversögn við samþykkt markmið Evrópusambandsins um að hvetja neytendur til þess að velja vörur með minna kolefnisfótspor í því skyni að draga úr loftslagsbreytingum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×