Innlent

Hrepps­ráð sér ekki hag sinn í að taka við rekstri flug­vallarins

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Vopnafjarðarflugvelli.
Frá Vopnafjarðarflugvelli. Vísir/Jóhann K.

Hreppsráð Vopnafjarðarhrepps segist ekki sjá hag sinn í því að sveitarfélagið taki yfir rekstur flugvallarins við bæinn af Isavia líkt og hefur verið til umræðu. Áréttað sé að það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að standa í slíkum rekstri.

Þetta kemur fram í fundargerð hreppsráðs frá fundi í síðustu viku, en í Morgunblaðinu í morgun segir að starfsmaður vallarins fari á eftirlaun á næsta ári og hafi Isavia viðrað þá hugmynd hvort að sveitarfélagið gæti tekið að sér reksturinn með svipuðum hætti og Langanesbyggð sjái um rekstur Þórshafnarflugvallar. Byggir það á samningum við Isavia þar sem Langanesbyggð fær greitt fyrir.

Í fundargerð segir að hreppráð sjái ekki hag sinn í því að taka við rekstrinum „miðað við framangreindar forsendur“. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að sjá um slíkan rekstur og þá er ríkið hvatt til að „standa vörð um opinber störf á landsbyggðinni“.

Norlandair flýgir í áætlunarflugi frá Akureyrar til Vopnafjarðarflugvallar en þar lenda jafnframt reglulega einkaflugvélar með laxveiðimenn. Þá sé hann nýttur fyrir sjúkraflug.

Morgunblaðið hefur eftir Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, að máið nái ekki lengra og að í framhaldinu verði þá líklega auglýst eftir nýjum starfsmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×