Innlent

Sam­fylkingin vill koma á fót í­þrótta­manna­launa­sjóði

Jakob Bjarnar skrifar
Helga Vala, Guðmundur Andri og Logi Einarsson eru meðal annarra flutningsmenn tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks.
Helga Vala, Guðmundur Andri og Logi Einarsson eru meðal annarra flutningsmenn tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. visir/vilhelm

Samfylkingin vill koma á fót launasjóði fyrir afreksíþróttafólk, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis. Þar er lagt til að Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra smíði frumvarp með þetta fyrir augum.

„Tilgangur sjóðins verði að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og auka möguleika þess á að helga sig íþróttaiðkun sinni,“ segir í tillögunni.

Í meðfylgjandi greinargerð kemur að með þessu sé afreksíþróttafólki í landinu skapaður fjárhagslegur grundvöllur til iðkunar á íþrótt sinni. Samfylkingin vill horfa til bæði launasjóðs stórmeistara í skák sem og launasjóða listamanna sem fyrirmynda; þar sem starfslaun eru greidd umsækjendum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum með mánaðarlegum greiðslum. Flutningsmenn tillögunnar telja að tímabært sé að stjórnvöld styðji betur við íslenskt íþróttafólk: fyrirmyndir æsku landsins. Fram kemur að íþróttafólk hafi kvartað vegna stöðu sinnar og kjörum og að erfitt sé að keppa á heimsmælikvarða án launa og réttinda.

Í greinargerðinni er vitnað til yfirlýsingar afreksfólks varðandi kjör sín í desember 2019. Þar segir:

„Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi, stéttarfélagsaðild, atvinnuleysisbætur, aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttindi til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×