Afmælisbarnið Morgan skaut Bandaríkjunum í þriðja úrslitaleikinn í röð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Morgan fagnar sigurmarkinu.
Morgan fagnar sigurmarkinu. vísir/getty
Heimsmeistarar Bandaríkjanna eru komnir í úrslitaleik HM kvenna árið 2019 eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Englandi í undanúrslitum í Lyon í kvöld.

Christen Press skoraði fyrsta mark leiksins á tíundu mínútu. Lucy Bronze gleymdi sér á fjærstönginni sem gerði það að verkum að Christen Press var alein. Henni brást ekki bogalistin og heimsmeistararnir komnir 1-0 yfir.

Níu mínútum síðar jafnaði framherjinn Ellen White með sínu sjötta marki á HM. Fyrirgjöf Beth Mead rataði beint í fætur White sem nái að táa boltanum framhjá Alyssu Naeher. Laglegt mark.

Alex Morgan var ekki lengi að koma Bandaríkjunum aftur yfir en tólf mínútum síðar skoraði hún með frábæru skallamarki eftir afskaplega laglega fyrirgjöf frá Demi Stokes.

Afmælisbarnið á skotskónum. Staðan var 2-1 fyrir heimsmeisturunum í hálfleik en ansi fjörugur fyrri hálfleikur sem bauð upp á margar frábærar sóknir og þrjú mörk.

Englendingar reyndu og reyndu. Tíu mínútum fyrir leikslok fengu þær svo vítaspyrnu eftir að brotið var á Ellen White rétt fyrir framan mark Bandaríkjanna.

Eftir mikla VARsjá skoðun ákvað dómari leiksins að benda á vítapunktinn. Steph Houghton, leikmaður Manchester City, steig á punktinn en lét Alyssa Naeher verja frá sér.







Varnarmaður Englands, Millie Bright, fékk svo sitt annað gula spjald á 86. mínútu fyrir glæfralega tæklingu og Englendingar því tíu. Þær náðu ekki að jafna metin og lokatölur 2-1.

Það verða því Bandaríkin og annað hvort Holland eða Svíþjóð sem mætast í úrslitaleiknum en þetta er þriðja heimsmeistaramótið í röð sem Bandaríkin fer í úrslitaleikinn.

Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn í Lyon en leikurinn um þriðja sætið fer fram á laugardaginn.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira