Innlent

Vegagerðin gerir ráð fyrir 15% stærri flóðum en áður vegna loftslagsbreytinga

Sighvatur Jónsson skrifar
Frá Skaftárhlaupi.
Frá Skaftárhlaupi. Vísir/Einar árnason

Vegagerðin gerir ráð fyrir að flóð verði um 15% stærri en áður vegna loftslagsbreytinga. Forstöðumaður hönnunardeildar stofnunarinnar segir að forsendur hönnunar vega og brúa séu aðrar en áður í þessu ljósi. Þannig verði brýr um 15% lengri en áður.



Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að fjórðungur af kostnaði tjóna sem Náttúruhamfaratryggingar Íslands hafa greitt á 30 ára tímabili er vegna atburða sem tengjast loftslagi.



Jón Örvar Bjarnason, sérfræðingur í tjóna- og áhættumati hjá Náttúruhamfaratrygginum Íslands, sagði á ráðstefnu sem fór fram í gær um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum að heildartjón stofnunarinnar á þessu tímabili nemi tæpum 34 milljörðum króna á núvirði. Kostnaður vegna tjóna af völdum loftslagstengdra atburða nemur um 275 milljónum króna á ári.



„Okkar sýn er sú að tíðni tjóna muni aukast þannig að endurkomutími atburða sem áður hafði 100 ár verði í framtíðinni með endurkomutíma upp á 10 ár,“ sagði Jón.

Frá brúarsmíðinni yfir Eldvatn.Mynd/vegagerðin

Flóð stærri og brýr lengri en áður

Hjá Vegagerðinni er einnig tekið tillit til áhrifa af völdum loftslagsbreytinga. Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, segir að hönnunarforsendur varðandi vegi og brýr séu aðrar en áður.



„Við erum að hanna fyrri stærri flóð en við gerðum fyrir tíu árum. Flóðtopparnir sem við erum að ákvarða vatnsop og brýr fyrir eru 10-15% stærri en áður með tilheyrandi lengri brúm og stærri ræsum,“ segir Guðmundur.



Veðurstofustjóri hefur bent á að setja verði á fót svokallað loftslagssetur sem verði samráðsvettvangur um loftslagsmál.



„Samtal og samvinna hlýtur að hjálpa til. Við erum að deila gögnum sem við erum að safna í daglegri starfsemi til annarra aðila. Ég held að það sé jákvætt í sjálfu sér að nýta samvinnu ólíkra aðila á þessu sviði,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×