Innlent

Telur að Þórdís Kolbrún verði áfram dómsmálaráðherra

Sighvatur Jónsson skrifar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, telur að Þórdís Kolbrún sitji áfram sem dómsmálaráðherra, þó nú sé talað um tímabundna lausn mála. Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að ákveða taki við öðrum ráðherraembættum Þórdísar.

„Þórdís Kolbrún er lögfræðimenntuð og hún hefur unnið í dómsmálaráðuneytinu áður þannig að mér finnst hún ágætis kostur til þess að taka við,“ segir Þórhildur.

„Mér finnst hins vegar þessi tímabundna ráðstöfun, ég set spurningarmerki við hana, mér finnst það ekki geta gengið mikið lengur en í nokkrar vikur. Þetta eru tvö viðamikil og mikilvæg ráðuneyti. Þrátt fyrir að mér finnist Þórdís Kolbrún mjög öflugur stjórnmálamaður þá held ég að dómsmálaráðuneytið með öll þau krefjandi mál sem eru fram undan þarfnast þess að hugur hennar sé allur í því. Þannig að ég vona að Bjarni og samflokksmenn hans finni lausn á því hver á að taka við ferðamálaráðuneytinu sem fyrst.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist telja það of mikið fyrir einn ráðherra að vera með fjóra málaflokka.

„Jú, ég hef sagt að þetta sé svona ríflegt skulum við segja. Enda hjó ég eftir því að fjármálaráðherra talaði um að þetta væri tímabundið sem er líka sérstakt,“ sagði Logi.

„Ef maður vill horfa á þetta pólitískum vinkli þá veltir maður fyrir sér hvort það hafi verið einhver órói inn í þingflokksherberginu og þetta hafi verið lausn til að róa hlutina.“

Ertu búinn að heyra aðrar sögur?

„Nei, ég hef ekki heyrt neitt og ekki spurði hann mig.“

 


Tengdar fréttir

Þórdís Kolbrún tekur við sem dómsmálaráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tekur við sem dómsmálaráðherra af Sigríði Á. Andersen. Þórdís kemur til með taka við embættinu tímabundið ásamt öðrum störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×