Innlent

Nemendur um allan heim í verkfalli fyrir loftslagið

Sylvía Hall skrifar
Íslenskir námsmenn af öllum skólastigum fjölmenntu við Hallgrímskirkju í hádeginu og tóku þátt í alþjóðlegu Loftslagsverkfalli. Þetta er fjórði föstudagurinn í röð sem mótmælt er fyrir loftslagið.

Landssamtök íslenskra stúdenta, Íslandsdeild Amnesty International, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Ungir umhverfissinnar og Stúdentaráð Háskóla Íslands standa fyrir verkfallinu.

Verkfallið í dag var með öðrum hætti en síðustu föstudaga þar sem dagskrá hófst við Hallgrímskirkju og kröfuganga gengin niður að Austurvelli þar sem kröfufundur fer fram.

Mótmælin fara samtímis fram víða um heim og er nú mótmælt meðal annars í Danmörku, Filippseyjum, Ítalíu og Sviss þar sem þúsundir hafa safnast saman til þess að krefjast aðgerða í loftslagsmálum. Talið er að verkfallið fari fram í yfir hundrað löndum í dag en verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg sem hóf verkfallsaðgerðir í ágúst á síðasta ári, aðeins 15 ára gömul.

Að sögn skipuleggjenda er tilgangurinn að vekja athygli á loftslagsmálum og sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir. Bent er á að stjórnvöld hafi sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 en núverandi aðgerðaráætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráðu á heimsvísu.

Skipuleggjendur hafa gefið það út að verkföllin munu halda áfram alla föstudaga þar til gripið verður til aðgerða. Ljósmyndari Vísis var á svæðinu en greinilegt er að ungir sem aldnir láti sig loftslagsmálin varða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×