Erlent

Þrír látnir eftir árásina í Utrecht

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í dag.
Frá vettvangi árásarinnar í dag. AP/Peter Dejong
Staðfest er að þrír létust og níu særðust í skotárásinni í hollensku borginni Utrecht í morgun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Jan van Zanen, borgarstjóra Utrecht, sem birt var á samfélagsmiðlum í dag. Áður var gefið út að einn hefði látist í árásinni.

Þá hafi líklegast vakað fyrir árásarmanninum að fremja hryðjuverk þegar hann hóf skothríð í morgun á brautarstöð við 24. októberstorg. Að sögn borgarstjórans er jafnframt gengið út frá því að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki en ekki er útilokað að hann hafi átt sér vitorðsmenn.

Yfirlýsingu Van Zanen (á hollensku) má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Lögregla í Utrecht hefur jafnframt óskað eftir vitnum að bílaþjófnaði í grennd við vettvang árásarinnar í morgun. Í tilkynningu frá lögreglu segir að rauðum Renault Clio hafi verið stolið í nærliggjandi götu skömmu fyrir árásina. Bíllinn fannst nokkru síðar en áður hefur komið fram að árásarmaðurinn hafi líklega flúið vettvang á rauðum bíl.

Þá leitar lögregla tyrknesks manns á fertugsaldri í tengslum við árásina en mynd af manninum var birt skömmu eftir hádegi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×