Innlent

Tíminn verði að leiða í ljós hvað verði um dómarana fjóra

Margrét Helga Erlingsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa

Tíminn verður að leiða í ljós hvað verður um dómarana fjóra sem skipaðir voru þvert á hæfnisnefnd við Landsrétt. Þetta segir nýskipaður dómsmálaráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem vill skoða hvað valkostir séu í stöðunni.

Hún segist enn þá vera þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að láta reyna á þau sjónarmið sem haldið var uppi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og vísa málinu til yfirdeildarinnar.

„Þetta er snúnara af því að þetta snýr að þrígreiningu ríkisvalds og ekki viljum við leggja til einhverja lausn sem á endanum er ekki lausn heldur einhver frekari flækja,“ segir Þórdís.

Hún getur ekki sagt til um það hversu langan tíma það mun taka fyrir stjórnvöld að ákveða hvort áfrýjað verði til yfirdeildar eður ei.

„Án þess að gera lítið úr þeirri stöðu sem upp er komin þá er það ekki þannig að það sé allt í frosti,“ segir Þórdís aðspurð um stöðuna í Landsrétti.

Landsréttur tók aftur til starfa í dag en þeir fjórir dómarar sem voru skipaðir þvert á lista hæfisnefndar munu ekki starfa við réttinn að svo stöddu. Katrín sagði að mögulega þyrftu Alþingismenn að vera undir það búnir að samþykkja á næstunni fjölgun dómara við Landsrétt til að tryggja eðlilegt starfsumhverfi dómstólsins.

Forsætisráðherra tók Landsréttarmálið fyrir á Alþingi í dag. Vísir/Vilhelm

Í ræðu sinni á Alþingi í dag sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að líklega yrði kallaður til erlendur sérfræðingur til að fara nánar yfir málið með henni og dómsmálaráðherra og skoða það ítarlega hvort tilefni væri til þess að láta á það reyna hvort yfirdeild MDE myndi taka málið fyrir.

„Ég segi að við eigum að taka úrskurðinn alvarlega en við eigum líka að gefa okkur svigrúm til að reifa sjónarmið dómsins, við eigum að reifa sjónarmiðin í minnihlutaálitinu og við eigum ekki að hleypa þessari umræðu í pólitískar skotgrafir,“ sagði forsætisráðherra á Alþingi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×