Innlent

Braust inn, stal tölvubúnaði og olli skemmdum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þjófurinn olli talsverðum skemmdum.
Þjófurinn olli talsverðum skemmdum. Vísir
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gær tilkynnt um innbrot í hverfi 109 þar sem tölvubúnaði hafði verið stolið. Þá voru talsverðar skemmdir unnar innandyra í húsinu. Þjófurinn er ófundinn, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Vímuefni komu við sögu í nær öllum öðrum verkefnum lögreglu í gær og nótt. Nokkrir ökumenn voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu í hverfi 221 vegna konu í annarlegu ástandi fyrir utan fjölbýlishús. Konunni var komið heim til sín að lokinni skoðun sjúkraliða.

Lögregla handtók svo mann í miðborginni þar sem hann svaf inn á stigagangi. Maðurinn var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem rætt var við hann og honum síðar sleppt.

Þá var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Breiðholti þar sem maður var að lýsa inn í bíla. Maðurinn fannst ekki. Einnig var tilkynnt um rúðubrot í Grafarvogi, annars vegar í bifreið og hins vegar í íbúðarhúsnæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×