Innlent

Leggja til að Stjórn­stöð skimunar taki yfir starf Leitar­stöðvar Krabb­meins­fé­lagsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Thor Aspelund, formaður Skimunarráðs, Alma D. Möller, landlæknir, og  Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, þegar tillögurnar voru kynntar í dag.
Thor Aspelund, formaður Skimunarráðs, Alma D. Möller, landlæknir, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, þegar tillögurnar voru kynntar í dag. vísir/baldur
Landlæknir og skimunarráð leggja til að skimanir fyrir krabbameinum verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu og að komið verði á fót sérstakri Stjórnstöð skimunar sem tæki yfir það starf sem Leitarstöð Krabbameinsfélag Íslands hefur sinnt sem og rekstur Krabbameinsskrár.

Tillögur landlæknis og skimunarráðs voru kynntar í dag en um er að ræða tillögur að breyttu skipulagi, stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Skimunarráð er ráðgefandi fyrir embætti landlæknis og var skipað í apríl á liðnu ári í samræmi við tillögu ráðgjafarhóps sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að með tillögunum sé verið að „færa skipulag skimana nær því skipulagi sem mælt er með í leiðbeiningum Evrópusambandsins um skimanir.“

Stjórnstöð skimana mun hafa víðtækt hlutverk sem mun meðal annars felast í því að skipuleggja og semja um framkvæmd skimana sem og um innkallanir og upplýsingagjöf til þeirra sem eru boðaðir í skimanir.

„Miðað er við að skimanir verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu. Horft er til þess að heilsugæslan fái þar hlutverk í ljósi nálægðar við notendur heilbrigðisþjónustunnar og þekkingarinnar á almennum forvörnum.

Að mati landlæknis og skimunarráðs er þetta til þess fallið að styrkja skipulag, utanumhald og eftirlit skimana. Enn fremur er lagt til að sett verði löggjöf um skimanir til að setja verkefninu skýrari farveg, skapa því stöðugleika og tryggja öryggi þátttakenda, gæðaeftirlit og fjármögnun,“ segir á vef stjórnarráðsins þar sem nálgast má nánari upplýsingar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×