Sport

Reykti gras á meðan hann tilkynnti að skórnir væru farnir upp í hillu | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Irving í leik með Kúrekunum. Hans verður sárt saknað enda öflugur.
Irving í leik með Kúrekunum. Hans verður sárt saknað enda öflugur. vísir/getty
David Irving, leikmaður Dallas Cowboys, tilkynnti í beinni á Instagram í gær að hann væri hættur í boltanum og reykti gras á meðan hann útskýrði ákvörðun sína.

NFL-deildin var að setja Irving í bann þriðja árið í röð fyrir að brjóta lyfjareglur deildarinnar. „Ég er hættur. Ég vil ekki tala um bann og þetta kjaftæði. Ég er farinn. Ég stend ekki í þessu lengur,“ sagði Irving.





Irving segist vera mjög ósáttur við deildina og allt sem gengur á þar.

„Fólk efast um ást mína á íþróttinni en það er bara kjaftæði. Ég elska fótbolta. Ég elska samt ekki NFL-deildina enda snýst hún ekki um fótbolta. Þið verðið að skilja það. Það sem þið sjáið er bara svona 20 prósent af því sem við verðum að gera,“ sagði Irving.





Leikmaðurinn hefur ekkert farið í felur með aðdáun sína á maríjúana og hann reykti eina jónu á meðan hann tjáði sig. Hann sagði það vera minnsta málið á meðan hann fengi heilahristing á hverri æfingu.

„Þetta snýst ekkert um hvort maður reyki gras. Hversu margir í NBA, MLB og UFC lenda í vandræðum út af grasreykingum? Ég er ekki slæmur að hafa valið þessa leið. Ég stend með sjálfum mér. Ég fer leið Kaepernick áður en þeir brjóta á mér eins og Kaepernick,“ sagði Irving en þar er mönnum ekki refsað fyrir að reykja maríjúana sem Irving lítur á sem lyf en ekki eiturlyf.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×