Erlent

Hélt sér á lífi í 101 sólarhring með skunkaveiðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kingston er aftur kominn í faðm eigenda sinna eftir 101 sólarhring á vergangi.
Kingston er aftur kominn í faðm eigenda sinna eftir 101 sólarhring á vergangi. AP/Ben Lepe
Hundurinn Kingston er aftur kominn í faðm eigenda eftir að þeir urðu viðskila í mannskæðustu skógareldum Kaliforníuríkis. Síðast sást til Kingston í nóvember síðastliðnum, þegar hann stökk af pallbíl eigendanna þegar þeir yfirgáfu bæinn Paradise sem varð hvað verst úti í skógareldunum.

Ekkert hafði því spurst til Kingston, sem er 12 ára gamall af tegundinni Akita, í um 101 sólarhring. Það var ekki fyrr en starfsmaður dýraathvarfs klófesti hann síðastliðinn sunnudag sem eigendur Kingston áttaðu sig á því að hann væri enn á lífi svo löngu síðar. Talið er að Kingston hafi haldið í sér lífi með því að veiða sér skunka til matar. Eigendur hans segja að hundurinn hafi gert það áður, auk þess sem það myndi útskýra óþefinn af honum.

„Ég felldi tár þegar ég komst að því að hann væri enn á lífi,“ segir Gabriel Ballejos, einn eigenda Kingston, í samtali við AP. „Ég er svo stoltur af honum, ég hreinlega trúi þessu ekki. Hann er ótrúlega þrautseigur.“

Eigendurnir höfðu auglýst eftir Kingston með ýmis konar dreifimiðum og færslum á netinu. Sá sem að lokum bar kennsl á Kingston hafði einmitt rekið í augun í eina slíka færslu.

Starfsmenn dýraathvarfs á svæðinu sáu stóran hund á upptökum öryggismyndavéla um helgina og ákváðu að leggja fyrir hann gildru. „Þegar ég kíkti svo í gildruna á sunnudag var hundurinn þar niðurkominn,“ segir hundafangarinn Ben Lepe við fréttamann AP. „Það er góð tilhugsun að vita til þess að hundurinn mun fá góða umönnun.“

Um 18 þúsund heimili í Kaliforníu urðu eldunum að bráð, sem brutust út þann 8. nóvember, og næstum 90 manns létu lífið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×