Innlent

Ljósmyndarar hræddust ekki ölduganginn í Reynisfjöru

Birgir Olgeirsson skrifar
Afar hvasst var í Reynisfjöru í morgun og ölduhæð mikil.
Afar hvasst var í Reynisfjöru í morgun og ölduhæð mikil. Petra Albrecht
Ferðamenn í Reynisfjöru létu ekki brimið hræða sig þrátt fyrir að það hafi reynst mörgum banvænt í gegnum árin. Ferðamennirnir stóðu í flæðarmálinu þar sem þeir stilltu upp þrífótum til að geta tekið magnaðar myndir af samspili klettanna og öldurótsins.

Rútubílstjórinn Petra Albrecht var stödd í Reynisfjöru í morgun og tók meðfylgjandi myndband. Hún segir í samtali við Vísi að enginn ferðamaður hafi lent í vandræðum á meðan þessa stóð en hún segist hafa talið að ferðamennirnir tilheyrðu hóp sem væri í umsjón leiðsögumanns sem hefði leiðbeint þeim um fjöruna og hætturnar sem þar leynast.

Petra sagði afar hvasst í Reynisfjöru í morgun og því hafi ölduhæð verið mikil.





Banaslys í fjörunni

Svörtu sandarnir í Reynisfjöru og nágrenni eru einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Ítrekað hafa borist fréttir af því að ferðamenn hafi verið hætt komnir í fjörunni. Í janúar árið 2017 var greint frá því að barn á leikskólaaldri hefði verið hársbreidd frá því að hafna í sjónum í Reynisfjöru og þá voru þýsk hjón hætt komin á sömu slóðum árið 2008 þegar alda tók þau með sér.



Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru
 og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir

Spá upp í 13 metra háum öldum

Djúp lægð er suðvestur af landinu og í morgunsárið færir hún hvassviðri eða storm á suðvestanvert landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×