Innlent

SGS vísar deilunni til sáttasemjara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá fundi samninganefndar Starfsgreinasambandsins og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í vikunni.
Frá fundi samninganefndar Starfsgreinasambandsins og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í vikunni. Vísir/Sigurjón
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefur ákveðið að vísa kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkisáttasemjara.

Samningur félaganna rennur út þann 28. febrúar næstkomandi og hafa þau því átt viðræður sín á milli frá því í október í fyrra. Hins vegar hafi um 110 fundir á síðustu mánuðum lítinn árangur borið að sögn samninganefndar SGS.

„Starfsgreinasamband Íslands telur vonlítið um árangur af frekari samninngaumleitunum við Samtök Atvinnulífsins,“ segir í yfirlýsingu samninganefndarinnar sem send var fjölmiðlum á fimmta tímanum. Því hafi verið tekin ákvörðun um að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Í yfirlýsingunni segir ennfremur að ýmislegt hafi þó þokast áfram í viðræðum félaganna á undanförnum mánuðum. Á þeim tíma hafa aðilar átt tæplega 80 fundi um sértæk mál, sem og hátt í 30 fundi viðræðunefnda SGS og SA, um forsendur og innihald nýs kjarasamnings. „Þrátt fyrir það er það mat viðræðunefndar Starfsgreinasambandsins að nú verði ekki komist lengra nema með aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni, sem er eðlilegt skref í áframhaldandi vinnu.“ 

Starfsgreinasambandið fer með umboð fyrir eftirtalin 16 aðildarfélög;

AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis.

Fréttin hefur verið uppfærð með ítarlegri upplýsingum.



Tengdar fréttir

Samningafundur hjá SGS og SA síðdegis í dag

Viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins mun klukkan 16 í dag eiga samningafund með Samtökum atvinnulífsins. Þar verða kröfur SGS ítrekaðar að því er fram kemur í tilkynningu á vef sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×