Enski boltinn

Lingard og Martial gætu náð leiknum á móti Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial og Jesse Lingard hafa báðir spilað vel undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.
Anthony Martial og Jesse Lingard hafa báðir spilað vel undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær hefur heldur betur glatt stuðningsmenn Manchester United síðan að hann tók við liðinu eftir 3-1 tap United gegn Liverpool 17. desember á síðasta ári.

Hann hélt áfram að gleðja stuðningsmenn liðsins á blaðamannafundi sínum í morgun þegar að hann greindi frá því að Jesse Lingard og Anthony Martial gætu mögulega náð leiknum á móti Liverpool á sunnudaginn.

Martial og Lingard meiddust báðir í eina tapleik Solskjær til þessa þegar að United lá í valnum, 2-0, á heimavelli gegn PSG í Meistaradeildinni í síðustu viku en báðir þurftu að fara út af vegna meiðsla sinna. Talið var að þeir yrðu ekki með næstu vikurnar.

Solskjær sagði á blaðamannafundi sínum í morgun að Lingard væri kominn vel á veg en Martial væri tæpari. Þó væri góður möguleiki að báðir taki þátt í leiknum á sunnudaginn.

Manchester United þarf sárlega á stigunum að halda í baráttunni um Meistaradeildarsæti og Liverpool má ekki misstíga sig of mikið í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn við Manchester City.

„Jesse lítur bara vel út en ég vona það besta með Anthony,“ sagði Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi sínum í morgun.


Tengdar fréttir

Van Dijk stækkaði um átján sentímetra eitt sumarið

Virgil van Dijk er kominn í hóp allra bestu varnarmanna heims og var heldur betur happakaup fyrir Liverpool fyrir í janúar í fyrra. Blaðamaður BBC settist niður með hollenska miðverðinum og fræddist meira um sögu hans og framtíðarsýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×