Innlent

Flokksráðsfundur Miðflokksins ekki að beiðni Birgis

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Flokksráðsfundur Miðflokksins er ekki til að stokka upp í þingflokknum.
Flokksráðsfundur Miðflokksins er ekki til að stokka upp í þingflokknum.
„Það er ekki verið að halda flokksráðsfund að beiðni eða skipun Birgis Þórarinssonar, þetta er bara fundur sem alltaf stóð til að halda,“ segir Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um fyrirhugaðan flokksráðsfund Miðflokksins.

Í Fréttablaðinu í gær var vísað til beiðni Birgis Þórarinssonar um flokksráðsfund vegna ákveðinnar uppstokkunar sem hann taldi þörf á í þingflokknum í kjölfar Klausturmálsins svokallaða og fundurinn hafi verið boðaður að hans beiðni. Jón segir að fundurinn sé ekki boðaður sérstaklega vegna Birgis.

„Flokksráð hefur ekkert með störf í þingflokknum að gera, það er þingflokkurinn sem ákveður það,“ segir Jón og vísar til þess að reglum flokksins samkvæmt fundi flokksráðið tvisvar á ári og fyrirhugaður fundur sé ekki aukafundur. Hann segir menn vera eitthvað að ruglast á hlutverki flokksráðsfundar og landsþingi þar sem kjör formanns og varaformanns fer fram. Á flokksráðsfundi hittist trúnaðarmenn og flokksráðsfulltrúar.

Jón segir dagsetningu flokksráðsfundar enn ekki fastráðna en hann fari fram í kringum næstu mánaðamót, á höfuðborgarsvæðinu. Sér vitanlega hafi ekki verið rætt um óskir Birgis um uppstokkun á vettvangi þingflokksins. Hann lætur þess þó getið að staðan hafi breyst enda þingmannafjöldinn farinn úr sjö í níu.




Tengdar fréttir

Þingmenn Miðflokks á eintali við sjálfa sig

Þingmenn í endurnýjuðum og fjölmennari þingflokki Miðflokksins mættu tvíefldir til leiks í umræðum á Alþingi í gær og héldu um þrjú hundruð ræður um frumvarp fjármálaráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×