Viðskipti innlent

Gistinóttum fækkar milli ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Veðrið í janúar lék marga ferðamenn grátt.
Veðrið í janúar lék marga ferðamenn grátt. Vísir/vilhelm
Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í janúar síðastliðnum voru um 543.000, en þær voru um 566.000 í sama mánuði fyrra árs. Heildarfjöldi gistinátta í janúar dróst því saman um 4,1% milli ára, þar af var 4,5% samdráttur á hótelum og gistiheimilum, 0,9% fækkun á öðrum tegundum gististaða og 6% samdráttur á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt Hagstofunnar um gistinætur í janúar. Þar segir að gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 323.000 talsins í síðasta mánuði, gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum voru 116.000 og um 104.000 gistnætur voru bókaðar í gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Einnig voru gistinætur erlendra ferðamanna um 6.000 í bílum utan tjaldsvæða og um 16.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Bretar voru með flestar gistinætur, 81.300, síðan Bandaríkjamenn, 57.200, og Kínverjar, 20.200, en gistinætur Íslendinga voru 23.500.

Þá var herbergjanýting í janúar 2019 var 49,9%, sem er lækkun um tæp 6 prósentustig frá janúar 2018 þegar hún var 55,8%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 2,1% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í janúar var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 66,3%.

hagstofa íslands





Fleiri fréttir

Sjá meira


×