Umfjöllun og viðtöl: Valur 83-72 Snæfell | Valdataka Vals í Laugardalnum

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. vísir/vilhelm
Valur og Snæfell mættust í kvöld í undanúrslitum Geysisbikarnum í körfubolta kvenna. 

 

Fyrr um daginn tryggði Stjarnan sér í úrslitaleikinn og því sæti í þeim leik undir. Leikurinn fór vel af stað fyrir Snæfellinga sem tóku frumkvæðið í 1. leikhluta. Staðan var 14-24 er fyrsta leikhluta lauk.

 

Upphófst þá einn svakalegur rússíbana leikhluti sem hófst á því að Valur skoraði sex stig í röð án þess að Snæfell gat svarað fyrir sig. Staðan 20-24, Snæfell í vil og Baldur, þjálfari liðsins tók þá leikhlé sem leiddi til þess að stelpurnar hans skoruðu sjö stig án þess að Valur gat svarað fyrir sig. 

 

Þá var komið að Darra Frey, þjálfara Vals, að taka leikhlé sem horfði þá upp á sitt lið skora 8 stig í röð. Vægast sagt frekar mögnuð atburðarrás. Þegar flautað var til hálfleiks var Valur með komið með forystu, 45-42 og ljóst að það stefndi allt í spennandi seinni hálfleik. 

 

Þriðji leikhluti olli engum vonbrigðum og var einn af þeim skemmtilegri sem undirritaður hefur séð lengi. Staðan að honum loknum var 58-60, Snæfell í vil.

 

Því miður fyrir okkur hlutlausu áhangendum þá var 4. leikhluti ekki jafn skemmtilegur því Valur tók hreinlega öll völd og vann að lokum öruggan, 83-72, sigur. 

 

Valur er því komið í bikarúrslit og mæta þar liði Stjörnunnar.

 

Afhverju vann Valur?

Báðir þjálfarar liðanna sögðu eftir leikinn að Valur væri með meiri breidd og ég get alveg tekið undir það. Það eru allar líkur á að bensínið hafi einfaldlega verið búið hjá liði Snæfells er 4. leikhluti hófst. 

 

Fyrstu þrír leikhlutarnir voru ótrúlega hraðir og ég sjálfur svitnaði bara við að horfa upp á baráttuna sem fyrir augu bar. Ég get vel ímyndað mér að með minni hóp sé erfitt að halda slíku uppi þegar hitt liðið getur hvílt leikmenn oftar.

 

En þreyta eða ekki þá þarf að nýta sér það og Valur gerði það og tók það alla leið. Darri og leikmenn liðsins eiga allt hrós skilið fyrir það. Ég hef ekki trú á öðru en að þær muni ekki gefa Stjörnunni tommu eftir á laugardaginn.

 

Hvað gekk illa?

Mér finnst erfitt að benda á eitthvað eitt því heilt yfir fannst mér þetta bara ótrúlega vel spilaður körfuboltaleikur. Bæði lið fóru á köflum eilítið illa með boltann og köstuðu honum frá sér en ég vil frekar skella því á góðan varnarleik en lélega sókn. 

 

Í 4. leikhluta klikkuðu leikmenn Snæfells á köflum á auðveldum skotum sem voru rándýr á þeim kafla leiksins en satt að segja finnst mér að bæði lið geti gengið af velli, stollt frekar en ekki.

 

Hverjar stóðu upp úr?

Það er ekki hægt að tala um leik sem Helena Sverrisdóttir spilar í án þess að minnast á hana. Hún, eins og alltaf, átti topp leik og kláraði hann með 33 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar. Þar að auki kláraði hún 12/12 vítaskotum.

 

Kristen McCarthy var frábær hjá Snæfelli en hú skoraði 24 stig, tók 9 fráköst, 7 stoðsendingar og síðast en ekki síst þá stal hún boltanum 10 sinnum. 

 

Hvað gerist næst?

Valur mætir Stjörnunni í bikarúrslitum og Snæfell mætir Val að nýju á Stykkishólmi eftir 11 daga.

 

Baldur: Er ekki með sömu breidd og Valur

„Ég er mjög ánægður með leikinn. Höfum átt erfitt undanfarna leiki og gjörbreyttum varnarleiknum okkar fyrir þennan leik á skömmum tíma og mér fannst þetta ganga mjög vel heilt yfir í kvöld,“ sagði Baldur Þorleifsson, þjálfari Snæfells eftir tapið gegn Val.

 

Leikurinn var hnífjafn fram að 4. leikhluta en þá féll leikur Snæfells niður.

 

„Við vorum ekki að hitta úr mikilvægum skotum og svo getur vel verið að þreyta spili inn í. Ég er ekki með sömu breidd og lið Valsara,“ sagði Baldur en hann segir að liðið stefni á að tryggja 4. sætið í Dominos deildinni en liðið situr þar núna er 8 leikir eru eftir. 

 

„Við eigum átta leiki eftir í deildinni og ef við höldum áfram að verjast eins og við gerðum í kvöld þá getum við tryggt 4. sætið,“ en næsti leikur liðsins er einmitt gegn Val en hann fer fram á Stykkishólmi.

 

„Það fer enginn í Hólminn án þess að finna vel fyrir því.“

 

Helena: Skelltum í lás í vörninni

„Frábært að klára þetta. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og liðin myndu skiptast mikið á þannig það var gott að landa þessu á endanum,“ sagði Helena Sverrisdóttir, leikmaður Vals, en hún skoraði 33 stig í leiknum.

 

„Við erum með okkar leikplan. Við vorum að tapa boltanum mikið á tímabili og þá fór leikurinn svolítið fram úr okkur. Leið og við náðum að stýra hraðanum og spila okkar leik þá kom þetta hjá okkur,“ sagði Helena en liðið náði ekki að stýra leiknum fyrr en í 4. leikhluta er Valur tók öll völd. 

 

„Við lokuðum bara öllu í vörninni. Við ætluðum einfaldlega að vinna þennan leik og skelltum í lás. Stýrðum sókninni okkar vel og tókum frumkvæðið,“ sagði Helena en Valur mætir Stjörnunni á laugardaginn næsta.

 

„Við verðum glaðar í kvöld en höfum hugan við laugardaginn strax á morgun.“

 

 Darri: Helena sú besta í sögunni

„Þetta var ekta bikarleikur. Leikur sem við hefðum vel getað tapað ef við hefðum ekki skrúfað hausinn rétt á í 4. leikhluta. Svo höfum við bara fleiri líkama sem geta komið inn á,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, í kjölfar þess að tryggja sæti sitt í úrslitaleik bikarsins með 83-72 sigri á liði Snæfells í undanúrslitum bikars kvenna í körfubolta. 

 

Leikurinn var hnífjafn fyrstu þrjá leikhlutanna en í þeim fjórða tóku Valsmenn öll völd og unnu á endanum öruggan, 83-72, sigur. Valur átti erfitt updráttar á löngum köflum og sýndi ekki sínar bestu hliðar.

 

„Það voru nokkrir leikmenn sem hafa verið frábærir í undanförnum leikjum sem áttu ekki sinn besta dag en þá stigu aðrir upp,“ sagði Darri og tók gott dæmi um slíkt framlag:

 

„Dagbjört Sara kom t.d. bara inn á í þrjár mínútur í öllum leiknum og skilar af sér +12 framlagi. Þessir litlu hlutir eru þeir sem skila svona sigrum,“ sagði Darri en Valur sýndi loksins sínar bestu hliðar í 4. leikhluta er liðið gjörsamlega keyrði yfir Snæfell.

 

Helena Sverrisdóttir, leikmaður Vals, var eins og við var að búast stórkostleg í leiknum og átti stóran þátt í sigri liðsins með 31 stig. 

 

„Hún er besti leikmaðurinn í sögunni. Það vita allir. Það hefur gefið okkur mikið að vera með hana í liðinu. Við höfum fundið gott jafnvægi upp á síðkastið með því að leyfa henni að hjálpa okkur og hjálpa henni mikið á móti,“ sagði hæstaánægður Darri Freyr.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira