Körfubolti

Martin og félagar töpuðu með minnsta mun í bikarúrslitum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Mynd/Instagram/albaberlin
Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson stóð í ströngu í dag þar sem hann lék stórt hlutverk hjá þýska stórliðinu Alba Berlin sem mætti Brose Bamberg í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í körfubolta.

Brose Bamberg hafði forystuna í leiknum stærstan hluta en í fjórða leikhluta voru Martin og félagar öflugri og urðu lokamínútur leiksins því æsispennandi. Martin kom Berlínarliðinu yfir, 79-80 þegar rúm hálf mínúta lifði leiks en Tyrese Rice jafnaði metin fyrir Bamberg af vítalínunni skömmu síðar.

Rokas Giedraitis kom Alba Berlin svo í 80-82 en þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum gerði Nikolaos Zisis sér lítið fyrir og negldi niður þriggja stiga körfu og tryggði Brose Bamberg þar með dramatískan sigur, 83-82.

Martin spilaði 26 mínútur í leiknum; skoraði sex stig, gaf sex stoðsendingar auk þess að taka eitt frákast og stela einum bolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×