Erlent

Macron ósáttur við mótmælendur sem veittust að heimspekingi með fúkyrðum

Sylvía Hall skrifar
Emanuel Macron.
Emanuel Macron. Getty/Bloomberg
Emanuel Macron Frakklandsforseti var allt annað en sáttur við mótmælendur gulu vestanna í færslu sem hann birti á Twitter-síðu sinni í gær. Færslan kom í kjölfar fúkyrðaflaums mótmælenda í garð heimspekingsins Alain Finkielkraut

Gulu vestin mótmæltu fjórtándu helgina í röð í gær og varð Finkielkraut á vegi þeirra á götum Parísar. Finkielkraut, sem er sonur pólskra innflytjenda og mikill stuðningsmaður Ísraelsríkis, var sakaður um múslimahatur og kallaður „skítugur síonisti“  af mótmælendum og náðist atvikið á myndband. 





„Sem sonur pólskra innflytjenda sem varð franskur fræðimaður er Alain Finkielkraut ekki einungis framúrskarandi maður orða heldur einnig táknmynd fyrir það sem lýðveldið gerir fólki kleift,“ skrifaði Macron í færslu sinni. 

Forsetinn bætti svo við að móðganir í líkingu við þær sem Finkielkraut þurfti að þola væru í andstöðu við allt það sem franska þjóðin stæði fyrir og slíkt myndi ekki líðast. 

Finkielkraut tjáði sig í samtali við franska vikublaðið Le Journal Du Dimanche í gær og sagðist hafa upplifað hatur en það væri því miður ekki í fyrsta sinn.


Tengdar fréttir

Frakkar í hart gegn óeirðaseggjum

Stjórnarþingmenn í Frakklandi hafa lagt fram frumvarp sem myndi meina mótmælendum að hylja andlit sitt og færa lögreglu aukið frelsi til þess að fjarlægja þá af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×