Erlent

Söguleg flóð í austanverðri Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliðar á báti bjarga íbúum húss undan flóði í Queensland-ríki.
Sjálfboðaliðar á báti bjarga íbúum húss undan flóði í Queensland-ríki. Vísir/EPA
Ekkert lát er á úrkomu í Queensland-ríki í austanverðri Ástralíu sem hefur valdið miklum flóðum. Varað er við úrhellisrigningu á svæðinu í dag og hefur þurft að rýma suma bæi vegna flóðanna. Á sama tíma geisa skógareldar á Tasmaníu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Adam Blazak, veðurfræðingi hjá Veðurstofu Ástralíu, að árstíðarbundnar rigningar af þessu tagi vari yfirleitt aðeins í nokkra daga. Úrkoman nú hefur staðið yfir í rúma viku og útlit er fyrir að hún haldi áfram í nokkra daga til viðbótar.

Gert er ráð fyrir 150-200 millímetrum úrkomu í strandbænum Townsville í norðurhluta Queensland í dag. Jafnast það á við mánaðarúrkomu á svæðinu. Yfirvöld þar hafa gefið út flóðaviðvörun.

Suður af meginlandinu er skraufþurrt á eyjunni Tasmaníu. Þar hafa kjarreldar brennt hátt í 190.000 hektara lands. Nærri því sex hundruð slökkviliðsmenn glíma nú við eldana þar sem hafa sumir brunnið í nokkrar vikur og eyðilagt íbúðarhús.

Janúarmánuður var sá hlýjasti í Ástralíu frá því að mælingar hófust. Spáð er áframhaldandi óvanalegum hlýindum þar út apríl sem er haustmánuður á suðurhvelinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×