Innlent

ASÍ segir ummæli fjármálaráðherra vera til marks um „hugmyndafræðilegan ágreining“

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Sylvía Hall skrifa
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Vísir/Vilhelm
Alþýðusamband Íslands gagnrýnir ummæli fjármálaráðherra þess efnis að tillögur sambandsins um breytingar í skattkerfinu muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Forseti sambandsins segir að um hugmyndafræðilegan ágreining sé að ræða. 

„Auðvitað veit ráðherra hvað við erum að tala um en við erum ekki sammála um nálgun í kerfinu, í skattkerfisbreytingum þannig það er bara hugmyndafræðilegur ágreiningur fyrst og fremst,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. 

Samkvæmt tilkynningu frá stjórn ASÍ hefur fjármálaráðherra haldið því fram í gagnrýni sinni á tillögur ASÍ um breytingar á skattkerfinu að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. 

„Þetta kristallar ákveðinn hugmyndafræðilegan ágreining. Ég vil bara minna á það að við erum að leggja til fjögurra þrepa skattkerfi og bara það að fjölga skattþrepum minnkar áhættuna á jaðarsköttum. Við erum líka að leggja á það áherslu að millitekjuhópurinn greiði ekki fyrir skattalækkanir og í samhengi við það má minna á að stjórnvöld hafa afsalað sér tekjum undanfarið með skattabreytingum.“

Samkvæmt tilkynningu frá stjórninni gera tillögur sambandsins ráð fyrir að skattbyrði 95% vinnandi fólks lækki eða haldist óbreytt en tekjuhæstu 5% munu hins vegar greiða hærri skatta en nú.

„Þetta er risastórt verkefni og samningar fram undan og kemur að hugmyndafræðinni um hvort raunverulega eigi að beita skattkerfinu til jöfnuðar og til þess að rýmka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu eða ekki,“ segir Drífa að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×