Erlent

Íbúar fórust þegar flugvél brotlenti á húsi í Kaliforníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsið stóð í ljósum logum.
Húsið stóð í ljósum logum. Skjáskot/Twitter

Fimm fórust þegar smáflugvél brotlenti á húsi í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum í gær. Flugmaðurinn og fjórir íbúar hússins, tveir karlar og tvær konur, létu lífið. Talið er að íbúar hússins hafi verið að halda Super Bowl-samkvæmi þegar slysið varð.

Húsið er í bænum Yorba Linda í sunnanverðri Kaliforníu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tveir fluttir slasaðir á sjúkrahús vegna slyssins. Flugvélin, sem er af gerðinni Cessna 414A, hafði verið skamman tíma í loftinu þegar hún hrapaði.

Í myndbandi sem Twitter-notandinn Joshua Nelson birti í gær sést hvernig húsið stendur í ljósum logum. Þá sjást skelfingu lostnir nágrannar virða fyrir sér hamfarirnar en brak úr flugvélinni er á víð og dreif um götuna.

Haft er eftir Pokey Sanchez slökkviliðsstjóra á svæðinu að ekki sé vitað hvort fleiri hafi farist í slysinu en rústir hússins verða kembdar í leit að fórnarlömbum. Þá hefur CBS-fréttastofan eftir vitnum að íbúar hússins hafi verið að halda Super Bowl-veislu þegar flugvélin brotlenti á húsinu um klukkan tvö eftir hádegi að staðartíma.

Nágrannar hinna látnu lýsa hryllilegri aðkomunni í viðtölum við héraðsmiðla. Hér að neðan má sjá viðtal fréttakonunnar Jasmine Viel við Laurie Stockstill en sú síðarnefnda kom að slysinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×