Innlent

Viðvaranir víða um land: Stormur og jafnvel ofsaveður í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það mun blása á morgun.
Það mun blása á morgun. vísir/vilhelm
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir og eina appelsínugula viðvörun fyrir morgundaginn þar sem von er á hvassviðri, stormi, roki og jafnvel staðbundnu ofsaveðri í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum með hviðum upp í allt að 45 metra á sekúndu síðdegis á morgun.

Á vef Veðurstofunnar tekur gul viðvörun gildi fyrir Suðurland klukkan þrjú í nótt. Hún gildir til klukkan 15 síðdegis á morgun en búast má við hvassviðri eða stormi á svæðinu og staðbundnu roki í Austur-Landeyjum. Víða gæti orðið mikill skafrenningur, ekki hvað síst fyrir hádegi og því lélegt ferðaveður.

Klukkan 15 á morgun tekur svo appelsínugul viðvörun gildi á Suðurlandi. Þá verður ekkert ferðaveður á svæðinu:

„Gengur í austan storm eða rok og jafnvel staðbundið ofsaveður í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð allt að 45 m/s. Hætta á foktjóni og ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Appelsínugul viðvörun er í gildi til klukkan 22 annað kvöld þegar gul viðvörun tekur við sem gildir til miðnættis.

Á Faxaflóa er varað við hvassviðri eða stormi frá klukkan sex í fyrramálið og er gul viðvörun í gildi þar til klukkan sex á miðvikudagsmorgun.

Hið sama gildir um miðhálendið þar sem varað er við stormi eða roki og á Suðausturlandi er varað við hvassviðri eða stormi frá klukkan 15 síðdegis á morgun og þar til klukkan sex á miðvikudagsmorgun.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×