Handbolti

Haukar fá tvítugan línumann lánaðan frá HK

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Ottó Hjálmsson mættur til Hauka.
Kristján Ottó Hjálmsson mættur til Hauka. mynd/Haukar
Olís-deildarlið Hauka bætti við sig leikmanni á lokadegi félagskipta en það fékk línumanninn unga Kristján Ottó Hjálmsson að láni frá HK sem leikur í Grill 66-deildinni.

Kristján Ottó verður hjá Haukum út tímabilið og fer nú úr því að berjast um sæti í Olís-deildinni í það að berjast um sigur í Olís-deildinni en Haukar eru í öðru sæti með 21 stig, stigi á eftir toppliði Vals eftir fjórtán umferðir.

Þessi tvítugi línumaður er búinn að skora 30 mörk í sjö leikjum fyrir HK í vetur en Kópavogsliðið er í fimmta sæti Grill 666-deildarinnar. Hann hefur leikið með meistaraflokki í rúm þrjú ár.

Haukar eru aðeins með einn línumann á sínum snærum þar sem Jón Þorbjörn Jóhannsson hefur glímt við erfið meiðsli en hann spilaði aðeins tvo leiki fyrir áramót og var svo ekki með á móti Akureyri um síðustu helgi.

Heimir Óli Heimisson hefur spilað frábærlega fyrir Haukanna og var í 28 manna HM-hópi íslenska landsliðsins en nú fær hann smá hjálp á línunni frá Kristjáni Ottó sem er byrjaður að æfa með Haukum.

Haukar mæta næst Fram í Safamýri á sunnudaginn klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×