Innlent

Smáhýsi fyrir heimilislausa rísa meðal annars við Héðinsgötu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Borgin ætlar sjálf að hanna smáhýsin og bjóða síðan út byggingu þeirra. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvernig þau munu líta út.
Borgin ætlar sjálf að hanna smáhýsin og bjóða síðan út byggingu þeirra. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvernig þau munu líta út. Mynd/Facebook síða Heiðu Bjargar
Öllum ellefu tilboðunum sem bárust Reykjavíkurborg í útboði um byggingu smáhýsa fyrir heimilislausa var hafnað. Þess í stað ætlar borgin sjálf að hanna húsin og bjóða út byggingu þeirra. Tólf einstaklingar hafa óskað eftir að fá úthlutað smáhýsi en vonir standa til að fyrstu húsin verði tilbúin síðsumars. Búið er að festa eina lóð við Héðinsgötu undir smáhýsin en þau munu ekki öll rísa á sama stað og er gert ráð fyrir að þau verði byggð með þeim hætti að hægt verði að flytja þau milli staða.

Borgarráð samþykkti í haust að verja 450 milljónum til kaupa á 25 smáhýsum fyrir heimilislausa. Í fyrstu var vonast til að hægt yrði að taka húsin í notkun fyrir áramót en ferlið hefur tekið lengri tíma. 

„Við höfum ákveðið að taka engu af þessum tilboðum sem bárust í byggingu smáhýsa. Það bárust 11 tilboð og ekkert þeirra uppfyllti í rauninni þær kröfur sem voru gerðar til smáhýsanna þannig að það var ákveðið að hafna þeim öllum og Reykjavíkurborg myndi hanna sjálf þessi hús sem eiga að vera 25-30 fermetrar og bjóða út byggingu þeirra,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Efla þjónustu í öðrum úrræðum á meðan

Aðspurð segist hún ekki gera ráð fyrir að þetta hafi í för með sér aukinn kostnað. „Við vorum að vonast til þess að geta opnað smáhýsin núna í mars, apríl en við sjáum fram á að það verði núna ekki fyrr en í júlí ágúst,“ segir Heiða. Það sem einnig tefur fyrir er að ráðast þarf í deiliskipulagsferli vegna lóða undir smáhýsin. Það ferli eitt og sér tekur 100 daga að sögn Heiðu en í fyrstu var ekki talið að þess þyrfti.

„Það er í það minnsta búið að finna eina lóð, festa eina lóð við Héðinsgötu af þeim líklega fimm sem að við munum þurfum að fá,“ segir Heiða. Sökum þessa hefur þjónusta verið aukin í þeim úrræðum sem þegar eru til staðar að sögn Heiðu.

„Það eru tólf einstaklingar núna sem að vilja gjarnan komast í smáhýsi og við bara pössum að veita þeim eins góða þjónustu og við getum á þeim tíma sem að þeir þurfa að bíða eftir því og höfum bætt við rýmum í bæði Víðinesi, gistiskýlinu og Konukoti og vettvangs- og ráðgjafarteymið okkar reynir að sinna öllum af mikilli alúð,“ segir Heiða.

Líklega verða ekki öll hýsin byggð á sama tíma en Heiða vonast til þess að hægt verði að festa lóðir undir hýsin á meðan þau eru í hönnun. Nú standa jafnframt yfir framkvæmdir á húsnæði við Grandagarð þar sem til stendur að opna neyðarskýli fyrir unga fíkla á næstu mánuðum.


Tengdar fréttir

Greiða 17.500 krónur fyrir nóttina í neyðarskýli

Garðabær og Hafnafjörður hafa gengið að óskum Reykjavíkurborgar um að greiða 17.500 króna gistináttagjald fyrir íbúa sveitafélagsins sem gista í neyðarskýlum borgarinnar. Kópavogur tekur málið fyrir í næstu viku.

Opna neyðarskýli fyrir fimmtán unga fíkla

Pláss verður fyrir fimmtán unga vímuefnaneytendur í nýju neyðarskýli sem Reykjavíkurborg hyggst opna á næsta ári. Þá stendur til að opna athvarf fyrir tvígreindar konur með geð- og fíknisjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×