Skoðun

Landslagsvernd

Ingimundur Gíslason skrifar
Fátt er skemmtilegra en að ferðast um Suðurlandsundirlendið í björtu veðri og virða fyrir sér fjöllin úti við sjóndeildarhringinn allt frá Botnsúlum til Eyjafjallajökuls. Og fátt er leiðinlegra en að aka um Smálöndin í Suður-Svíþjóð þar sem stórfelld skógrækt hefur nær útrýmt opnu landslagi sem var þar einkennandi fyrr á tímum.

Nú ekur maður þar tímunum saman í djúpu gili þar sem þéttur veggur barrtrjáa er til beggja handa. Útsýni takmarkast þar að mestu leyti við veginn beint fram undan. Sama má segja um víðáttumikil landssvæði í Suður-Afríku en þar hafa evrópsk stórfyrirtæki, sem framleiða pappír, gróðursett hraðvaxta evkalyptustré í stórum stíl. En nú eru blikur á lofti á Suðurlandi. Mikil trjárækt og skógrækt er smátt og smátt að breyta landslagsmyndinni. Þetta er að gerast hægt en örugglega.

Nú þegar hafa orðið til trjágöng meðfram þjóðvegum á nokkrum stöðum. Háar aspir í röð með fram vegum, til dæmis á leiðinni að Flúðum, Reykholti og Hvolsvelli, draga úr útsýni til fjalla. Þá eru víða að verða til stór skógarflæmi. Hvað segja skipulagsyfirvöld á hverjum stað um þessa þróun mála? Ef heldur fram sem horfir munu afkomendur okkar aka um vegi Suðurlands í djúpum, dimmum skógargiljum eftir 50 ár. Sænski söngvarinn Ulf Lundell söng einu sinni „Jag trivs best i öppna landskap” eða „Ég kann best við mig í opnu landslagi“. Og ég þekki dæmi þess að Evrópusambandið styrki bændur sem eru að draga úr nautgriparækt á búum sínum með verulegu fjárframlagi gegn því að þeir sjái til þess að beitiland haldist opið og að nærliggjandi skógur nái ekki að breiðast þar yfir.

Skógar veita skjól sem margt fólk sækist eftir en einhver takmörk hljóta að verða á fórnarkostnaðnum í því sambandi. Og má ég þá frekar biðja um hressandi sunnlenskt slagveður. Verndum hið opna landslag!

Höfundur er augnlæknir




Skoðun

Sjá meira


×