Erlent

Bílsprengja við réttarsal í Londonderry

Andri Eysteinsson skrifar
Frá norðurírsku borginni Londonderry, einnig þekktri sem Derry.
Frá norðurírsku borginni Londonderry, einnig þekktri sem Derry. EPA/Paul McErlane
Bílsprengja sprakk fyrir utan réttarsal í norðurírsku borginni Londonderry í gærkvöld. Lögreglu hafði borist ábending um sprengjuna og hafði rýmt svæðið.

Sprengingin varð klukkan 20:15 að staðartíma og var bifreiðin sem sprakk stödd á hinni fjölförnu Bishop Street. Lögregla hafði rýmt götuna auk nærliggjandi bygginga, þar með töldu hóteli í nágrenninu. BBC greinir frá því að bílnum, sem notaður var við sprenginguna, hafi verið rænt í borginni nokkru áður.

Norður-írskir stjórnmálamenn hafa fordæmt sprenginguna og sögðu samfélagið í áfalli vegna hennar. Þar á meðal er leiðtogi DUP flokksins Arlene Foster.

Londonderry, eða Derry eins og borgin er einnig kölluð, var vettvangur mikilla átaka á síðustu öld. Til að mynda voru 28 óvopnaðir borgarar skotnir af hermennum breska hersins 30. janúar 1972, 14 létust eftir árásina en dagurinn var síðar meir nefndur „Blóðugi sunnudagurinn“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×