Körfubolti

Snæfell í undanúrslit eftir dramatískar lokamínútur í Hólminum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Berglind Gunnarsdóttir skoraði tvö stig fyrir Snæfell í dag
Berglind Gunnarsdóttir skoraði tvö stig fyrir Snæfell í dag vísir/bára
Snæfell er komið í undanúrslit Geysisbikars kvenna í körfubolta eftir sigur á Haukum í Stykkishólmi í dag.

Eins og svo oft áður fór Kristen McCarthy fyrir Snæfellskonum í stigaskori en hún var með 33 stig fyrir heimakonur sem unnu 72-68 sigur. Þar á meðal var mikilvægur þristur undir lok leiksins sem tryggði Snæfelli sigurinn

Leikurinn var mjög jafn til að byrja með en Snæfell náði upp átta stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta sem var þá mesti munurinn sem verið hafði í leiknum. Þær náðu að koma því upp í 12 stig áður en Haukar klóruðu sér leið til baka og var munurinn aðeins fimm stig í hálfleik 40-35.

Haukar náðu að jafna leikinn í þriðja leikhluta en heimakonur voru fljótar að koma sér aftur fæti framar og þrátt fyrir að leikurinn héldist nokkuð jafn þá var Snæfell með smá forskot. Það munaði aðeins tveimur stigum á liðunum fyrir síðasta leikhlutann.

Snæfell byrjaði síðasta fjórðunginn á góðu áhlaupi og skoraði 12 stig í röð, munurinn orðinn 14 stig þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Gestirnir úr Hafnarfirði voru ekki af baki dottnar og náðu aftur að vinna niður forskot Snæfells, Lele Hardy minnkaði muninn í þrjú stig með þriggja stiga skoti þegar rétt tæp mínúta var eftir af leiknum.

Lokasekúndurnar urðu æsispennandi, Lele hefði getað jafnað leikinn þegar 18 sekúndur voru eftir en þriggja stiga skot hennar hitti ekki í körfuna. McCarthy refsaði með þriggja stiga körfu hinu megin og tíminn að renna út fyrir Hauka. Klaziena Guijt náði sniðskoti undir lokin en það dugði ekki til og fjögurra stiga sigur Snæfells raunin.

Snæfell er því komið með farseðil í Laugardalshöllina í febrúar, úrslitavikan er 13.-17. febrúar. Fyrr í dag vann Stjarnan sér inn sæti í undanúrslitunum, seinna í kvöld mætast svo Breiðablik og ÍR annars vegar og Keflavík og Valur hins vegar í síðustu leikjum átta liða úrslitanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×