Viðskipti innlent

Spá að ein­stak­lings­heimilum muni fjölga mest allra

Atli Ísleifsson skrifar
Húsnæðismál eru mikið til umræðu þessa dagana.
Húsnæðismál eru mikið til umræðu þessa dagana. vísir/vilhelm
Íbúðalánasjóður spáir því að einstaklingsheimilum muni fjölga mest allra heimilisgerða á næstu árum. Það er breyting frá því sem áður var og gæti kallað á talsvert minni stærð íbúða hér á landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði en á hádegisfundi í dag var meðal annars kynnt ný skýrsla um íbúðaþörf á Íslandi til ársins 2040.

Í tilkynningunni segir að að líkindum muni skorta fleiri þriggja herbergja íbúðir inn á markaðinn en nú eru til sölu og leigu. Þá ályktun megi draga af nýlegri spurningakönnun Íbúðalánasjóðs þar sem flestir aðspurðra hafi sagst vilja flytja í þriggja herbergja íbúð.

„Þegar spurt var um óska fermetrafjölda íbúðar var algengasta bilið 80-120 fm. Þær íbúðir sem er nú eru í uppbyggingu eru að meðaltali á bilinu 110-120 fm að stærð og eru því í efri mörkum þess bils sem mest eftirspurn er eftir.“

Róttækar breytingar

Haft er eftir Ólafi Heiðari Helgasyni, hagfræðingi í hagdeild Íbúðalánasjóðs, að róttækar breytingar gætu átt eftir að sjást á eftirspurn eft­ir stærð íbúða, líkt og spár sjóðsins um fjölgun einstaklingsheimila væru til merkis um.

„Nú eru um 30% allra heim­ila ein­stak­lings­heim­ili en við áætlum að helm­ing­ur allr­ar fjölg­un­ar heim­ila til árs­ins 2040 verði vegna ein­stak­lings­heim­ila. Þetta er meðal annars vegna breytts fjölskyldumynsturs, minnkandi barneigna og mikillar fjölgunar eldri borgara á næstu árum. Mörg pör eignast nú aðeins eitt barn og margir eldri borgarar búa einir, auk þess sem algengt er að þeir sem eru tveir í heimili kjósi að minnka við sig húsnæði. Það mætti kannski segja að meðalíbúð framtíðarinnar sé 100 m2, þriggja herbergja og með frá einum og upp í þrjá íbúa. Það er mikil breyting. Um leið er þó rétt að minna á að enn vantar sárlega íbúðir sem eru minni en 100 fm. Hagkvæmar smáíbúðir ekki síst. Þar er ennþá stórt gat á húsnæðismarkaðnum sem þarf líka að uppfylla,“ segir Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×