Fótbolti

Barcelona með bakið upp við vegg í fyrsta leik prinsins en PSG auðveldlega áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kevin Prince-Boateng í búningi Barcelona í kvöld.
Kevin Prince-Boateng í búningi Barcelona í kvöld. vísir/getty
Barcelona er með bakið upp við vegg í spænska bikarnum eftir 2-0 tap gegn Sevilla í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænska konugsbikarsins.

Börsungar hvíldu marga af sínum bestu leikmönnum en Lionel Messi var ekki í leikmannahópnum og þeir Luis Suarez, Philippe Coutinho og Jordi Alba voru á bekknum.

Kevin-Prince Boateng var í byrjunarliðinu og spilaði í 63 mínútur í fremstu víglínu liðsins en hann kom að láni frá Sassulo í gær. Félagsskiptin vöktu mikla athygli enda ekki farið mikið fyrir ferli Kevin-Prince undanfarið.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 58. mínútu kom Pablo Sarabia Sevilla yfir. Stundarfjórðungi fyrir leikslok tvöfaldaði Wissam Ben Yedder forystuna og lokatölur 2-0.

Liðin mætast aftur í næstu viku, þá á heimavelli Barcelona og þá kemur í ljós hvort liðið tryggir sér sæti í undanúrslitum spænska konungsbikarsins.

PSG komst nokkuð þægilega í 16-liða úrslit frönsku bikarkeppninnar með 2-0 sigri á Strasbourg. Edinson Cavani kom PSG yfir á þriðju mínútu og undir lokin tvöfaldaði Angel Di Maria forystuna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×