Körfubolti

Sjáðu hvernig „Víkingahugarfarið“ hjá Martin bjargaði Alba Berlin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Mynd/Instagram/albaberlin
Íslenski körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson átti magnaðan leik með Alba Berlin i Evrópukeppninni í vikunni í sigri á litháíska liðinu Rytas Vilnius.

Alba Berlin vann leikinn 87-85 en útlitið var bjart þegar Rytas Vilnius var 21 stigi yfir, 60-39, í upphafi seinni hálfleiks.

Þýska liðið átti hins vegar íslenska ás upp í erminni og Martin Hermannsson jafnaði metin nánast upp á eigin spýtur þegar hann skoraði 17 stig Alba liðsins í röð.

Martin endaði síðan leikinn á því að tryggja Alba sigurinn á vítalínunni. Hann var með 25 stig á 24 mínútum og hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Alba Berlin setti inn myndband á fésbókarsíðu sína um þessa frammistöðu íslenska landsliðsmannsins og talar þar um „Víkingahugarfarið“ eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar má sjá Martin raða niður þriggja stiga skotunum.



Alba Berlin komst á topp E-riðilsins í EuroCup með þessum sigri. Martin er með 15,8 stig að meðaltali í leik og hefur hitt út 56 prósent þriggja stiga skotanna og 92 prósent vítanna. Hann er líka búinn að gefa 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þessi 25 stig eru það mesta sem Martin hefur skorað í einum leik fyrir Alba Berlin en það er gaman að sjá að Martin hefur náð sér fullkomlega af meiðslunum og er klár í að taka enn eitt stóra skrefið á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×