Erlent

„Gulu vestin“ hyggjast bjóða fram til Evrópuþingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælum "gulu vestanna“ við Eiffelturninn í París.
Frá mótmælum "gulu vestanna“ við Eiffelturninn í París. Getty
Franska mótmælendahreyfingin sem kennir sig við „gul vesti“ hefur tilkynnt að hún ætli sér að bjóða fram í kosningum til Evrópuþingsins í maí.

Er hreyfingin nú þegar búin að tilkynna um tíu frambjóðendur og að vonir standi til að 79 verði á framboðslistanum þegar upp er staðið.

Hreyfingin spratt upp úr mótmælum gegn hækkun eldneytisverðs í nóvember. Síðustu vikurnar hafa tugþúsundir tekið þátt í mótmælum „gulu vestanna“í París og víðar í Frakklandi. Reglulega hefur komið til átaka milli mótmælenda og lögreglu og eru þau sögð þau verstu í París frá árinu 1968.

Tákn um gamaldags elítisma

Hreyfingin leggst gegn núverandi stjórnkerfi, bæði í Frakklandi og innan Evrópusambandsins, og segja Emmanuel Macron Frakklandsforseta vera tákn um gamaldags elítisma og ekki vera í neinum tengslum við franskan almenning.

Frambjóðendurnir tíu eru á aldrinum 29 til 53 og koma úr hinum ýmsu sviðum samfélagsins. BBC  segir frá því að í frambjóðendahópnum sé meðal annars að finna framkvæmdastjóra lítils fyrirtækis, lögmann, og heilbrigðisstarfsmann. Sex frambjóðendanna eru konur en fjórir eru karlar. Þessi nýja stjórnmálahreyfing kallar sig RIC og hefur enn ekki verið skipaður leiðtogi eða formaður.

Le Monde greinir frá því að flokkurinn þurfi nú að safna saman um 700 þúsund evrum, tæpum 100 milljónum króna, til að geta boðið fram.

Kosningar til Evrópuþingsins standa frá 23. til 26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×