Erlent

Gríska þingið sam­þykkti samninginn um nafna­breytingu Makedóníu

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fagnaði niðurstöðunni í þingsal í dag.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fagnaði niðurstöðunni í þingsal í dag. AP
Naumur meirihluti grískra þingmanna samþykkti í dag sögulegan samning stjórnvalda í Grikklandi og Makedóníu sem ætlað er að binda enda á 27 ára gamla deilu ríkjanna um nafnið á Makedóníu.

153 þingmenn á gríska þinginu greiddu atkvæði með samningnum, sem kveður á um að nafni landsins skuli breytt í Lýðveldið Norður-Makedónía, en 146 greiddu atkvæði gegn. Makedónska þingið hafði áður samþykkt samninginn.

Stór hluti grísku þjóðarinnar er mjög andsnúinn samningnum og mótmæltu þúsundir manna fyrir utan þinghúsið í Aþenu í gærkvöldi.

Hafa komið í veg fyrir aðild að ESB og NATO

Grikkir hafa neitað að samþykkja nafnið á Makedóníu allt frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði árið 1991. Er ástæðan sú að í Grikklandi er að finna hérað með sama nafn.

Sökum þessa hafa Grikkir komið í veg fyrir allar tilraunir Makedóníumenna að ganga í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið.

Í Grikklandi er andstaða við nafnabreytinguna mest í Makedóníu-héraði í norðurhluta Grikklands, en skoðanakannanir benda til að um 60 prósent Grikkja séu mótfallnir samningnum.



Löng umræða

Umræður um málið stóðu í 38 tíma í þinginu þar sem á þriðja hundrað þingmanna tóku til máls. 

Þingmenn hægri öfgaflokksins Gylltrar dögunar hrópuðu „Landráðamenn!“ á meðan atkvæðagreiðslan stóð yfir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×