Körfubolti

Jokic óstöðvandi og Warriors vann tíunda leikinn í röð

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nikola Jokic
Nikola Jokic Vísir/Getty
Það voru tveir stórleikir á dagskrá NBA deildarinnar í nótt en alls fóru fimm leikir fram.

Miðherjinn öflugi, DeMarcus Cousins, sneri aftur á körfuboltavöllinn nýverið eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla og hann minnti á sig í stórleik Golden State Warriors og Boston Celtics.

Cousins setti niður 15 stig og tók 8 fráköst á þeim 23 mínútum sem hann spilaði auk þess að fá 5 villur. 

Kevin Durant var stigahæstur með 33 stig en meistararnir gerðu heldur betur góða ferð til Boston og unnu fjögurra stiga sigur, 111-115. Kyrie Irving var atkvæðamestur heimamanna með 32 stig og 10 stoðsendingar.

Í hinum stórleiknum hafði Denver Nuggets betur gegn Philadelphia 76ers, 126-110, en Sixers lék án Joel Embiid og Jimmy Butler.

Serbinn stóri og stæðilegi, Nikola Jokic, var algjörlega óstöðvandi með 32 stig, 18 fráköst og 10 stoðsendingar.

Úrslit næturinnar


New Orleans Pelicans 114-126 San Antonio Spurs

Memphis Grizzlies 106-103 Indiana Pacers

Boston Celtics 111-115 Golden State Warriors

Denver Nuggets 126-110 Philadelphia 76ers 

Portland Trail Blazers 120-111 Atlanta Hawks 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×