Enski boltinn

Guardiola: Þurfum líklega að bæta stigametið til að vinna Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með Englandsbikarinn.
Pep Guardiola með Englandsbikarinn. Getty/Matthew Ashton
Manchester City getur minnkað forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í eitt stig takist liðinu að vinna Newcastle United á St James’ Park í kvöld. Liverpool spilar ekki fyrr en á morgun.

Leikur Newcastle og Manchester City er í beinni á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 19.50 í kvöld.





Lærisveinar Pep Guardiola eru fjórum stigum á eftir Liverpool þegar fimmtán umferðir eru eftir af mótinu. Guardiola sér ekki fram á það að Liverpool tapi mörgum stigum á lokakafla ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool mætir Leicester City á Anfield annað kvöld.

Pep Guardiola er á því að Manchester City þurfi möguleika að vinna síðustu fimmtán leiki sína til að taka titilinn og það myndi þýða nýtt stigamet.

„Það skiptir okkur ekki þannig séð máli að bæta stigametið en staðan er bara þannig að við þurfum að vinna marga leiki til að verða meistarar. Liverpool mun ekki tapa mörgum stigum og við þurfum líklega að bæta stigametið til að enda með fleiri stig en Liverpool,“ sagði Guardiola.

„Ég veit ekki hvað við þurfum nákvæmlega til að vinna ensku deildina en ég er viss um að við þurfum marga sigra og sá fyrsti er á móti Newcastle. Liverpool tapar ekki mörgum stigum og við þurfum að passa að vera áfram með í baráttunni,“ sagði Guardiola.

Liverpool gæti komist upp með að tapa tveimur leikjum á lokakaflanum misstigi City-liðið sig í einum leik.





„Áður fyrr þurfti 85, 87 eða 89 stig til að vera enskur meistari. Nú þarftu að ná í meira en 90 stig. Við þurfum að vinna alla leiki og hver leikur er einskonar úrslitaleikur fyrir okkur. Sömu sögu er síðan að segja af bikarleikjunum okkar,“ sagði Guardiola.

Manchester City setur samt mun meiri pressu á Liverpool takist liðinu að vinna Newcastle í kvöld og minnka forskotið í eitt stig.

„Öll lið sem ætla að vinna titilinn finna fyrir pressu og þú verður að ráða við hana. Ég veit ekki hvað þeir muni hugsa ef við minnkum forskotið í eitt stig. Ég er ekki í búningsklefanum hjá liðinu hans Jürgen,“ sagði Guardiola.





„Allt sem við getum gert er að vinna okkar leiki og sjá til þess að þeir finni fyrir því að Manchester City sé alltaf þarna. Það er hins vegar allt annað mál að vera bara einu stigi á eftir þeim í stað þess að vera fjórum, sjö eða jafnvel tíu stigum á eftir,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×