Erlent

Fyrrverandi lögmaður Trump mun bera vitni fyrir þingnefnd

Atli Ísleifsson skrifar
Dómstóll í New York dæmdi í desember Michael Cohen í þriggja ára fangelsi.
Dómstóll í New York dæmdi í desember Michael Cohen í þriggja ára fangelsi. Getty/Michael Cohen
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur samþykkt að bera vitni fyrir nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá þessu í kvöld og segja að vitnisburður Cohen komi til með að verða fyrir opnum tjöldum.

Cohen er einn af lykilmönnunum í rannsókn saksóknarans Robert Mueller á afskiptum Rússa á forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016.

Þriggja ára fangelsi

Dómstóll í New York dæmdi í desember Cohen í þriggja ára fangelsi  eftir að hann játaði að hafa gerst sekur um skattsvik og brot á kosningalögum eftir fyrirskipun frá Trump.

Þá játaði hann að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um fyrirætlanir Trump um byggingu á Trump Tower í Moskvu. Sagðist hann hafa logið til þess að styðja við opinberar yfirlýsingar Trump um að hann hefði ekki átt í neinum viðskiptum í Rússlandi.

Í lok sumars játaði Cohen á sig brot á kosningalögum sem tengdust greiðslum til klámmyndaleikkonu sem sagðist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump. Cohen gerði þá samkomulag við saksóknarann Roberts Mueller um samvinnu í skiptum fyrir mildari refsingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×