Innlent

Beint útsending: Fréttir Stöðvar 2

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 förum við yfir aðalmeðferðina í Shooters-málinu svokallaða en þar kom fram að 37 ára dyravörður sem lamaðist fyrir neðan háls í líkamsárás á kampavínsklúbbnum Shooters í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið sumar hlaut svokallaðan alskaða. Þetta kom fram í máli bæklunarlæknis dyravarðarins þegar aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Artur Pawel Wisocki, 29 ára gamall Pólverji, játar að hafa ráðist á dyravörðinn en neitar að hafa hrint honum með þeim afleiðingum að hann lamaðist.

Við segjum frá þeim viðsnúningi að eftir stíf fundahöld með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og starfsfólki atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hafi fundist leiðir til að draga úr fyrirhuguðum niðurskurði hjá Hafrannsóknastofnun. Ekki kemur til uppsagna og ekki þarf leggja rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni.

Við segjum einnig frá því að þingmaður Vinstri grænna vill að ríkisstjórnin kanni það til hlítar hvort hægt sé að sameina Íslandsbanka og Landsbankann áður en teknar verði ákvarðanir um sölu bankanna. Varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir slíkar hugmyndir óráð og hefur efasemdir að það myndi standast samkeppnisrétt.

Nokkrir ökumenn sem skemmdu bíla sína eftir að hafa ekið í holu á Hellisheiði í byrjun janúar ætla ekki að una ákvörðun Vegagerðarinnar sem ætlar ekki að bæta tjón ökumannanna. Til skoðunar er að höfða dómsmál á hendur Vegagerðinni vegna málsins.

Fyrirhugað er að byggja allt að 500 íbúðir og 6000 fermetra af atvinnuhúsnæði við Suðurlandsbraut og Ármúla.  Rífa á iðnaðarhúsnæði sem fyrir er á lóðinni en Orkuhúsið fær að standa og við heyrum af söngleik sem verður settur upp í Borgarleikhúsinu sem byggir á ævi og ferli söngvarans Bubba Morthens.

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá og á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöð 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×