Enski boltinn

Fékk óhuggulegar fréttir fyrir leikinn en tryggði svo Man United sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford.
Marcus Rashford. Getty/Clive Rose
Enskir miðlar segja frá því að ráðist hafi verið á bræður Marcus Rashford og Trent Alexander-Arnold á kaffihúsi í Manchester á laugardaginn.

Dane Rashford og Tyler Alexander-Arnold eru báðir umboðsmenn bræðra sinna sem spila með stórliðum Manchester United og Liverpool.

Dane Rashford og Tyler Alexander-Arnold voru rændir á Littlerock kaffihúsinu í Moss Side hverfinu í Manchester en þrír menn mættu þangað vopnaðir byssu, sveðju og hafnarboltakylfu.

Þrír slösuðust í ráninu en það fer tvennum sögum af því hvort að þeir Dane Rashford og Tyler Alexander-Arnold séu í þeim hópi.





Telegraph heldur því hinsvegar fram að bróðir Marcus Rashford hafi endað á sjúkrahúsi eftir árásina en sólarhring síðar skoraði Marcus Rashford einmitt sigurmark Manchester United í leik á móti Tottenham á Wembley.

Samkvæmt upplýsingum Telegraph enduðu Dane Rashford og Tyler Alexander-Arnold báðir á sjúkrahúsi en voru hvorugur mikið slasaður og því sleppt fljótlega. Enginn slasaðist alvarlega í ráninu en fólkið var auðvitað í miklu sjokki.





Það kemur fram í sömu frétt að Marcus Rashford hafi frétt af árásinni á bróður sinn fyrir leikinn á móti Tottenham en enski landsliðsframherjinn snjalli var löngu kominn suður til London vegna leiksins, þegar ránið fór fram.

Marcus Rashford lét þessar óhuggulegu fréttir ekki á sig fá því hann skoraði eina markið í leik Manchester United og Tottenham og tryggði United liðinu með því fimmta deildarsigurinn í röð.

Lögreglan í Manchester var fljót að finna sökudólgana ef marka má upplýsingar hennar. Fjórir menn, 18 ára, 19 ára, 23 ára og 58 ára, og svo tveir sautján ára gamlir drengir hafa verið handteknir vegna málsins samkvæmt frétt BBC.

Í ráninu ógnuðu mennirnir gestum veitingahússins og skipuðu þeim að afhenda öll verðmæti sem og bíllykla sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×