Enski boltinn

Varð Evrópumeistari með félaginu og sest nú í stjórastólinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin O'Neill fagnar Evrópumeistaratitli með Nottingham Forest árið 1980.
Martin O'Neill fagnar Evrópumeistaratitli með Nottingham Forest árið 1980. Vísir/Getty
Martin O'Neill þekkir það mjög vel að vera leikmaður Nottingham Forest en nú snýr Norður-Írinn aftur á City Ground eftir 37 ára fjarveru.

BBC Radio í Nottingham sagði frá því að Martin O'Neill sé að taka við knattspyrnustjórastöðunni hjá Forest af Aitor Karanka sem hætti með liðið á föstudaginn. O'Neill yrði þá ellefti stjóri Forrest liðsins frá júní 2011.

O'Neill hætti í nóvember sem þjálfari írska landsliðsins eftir fimm ára starf.

Nottingham Forest er eins og er í 9. sæti ensku b-deildarinnar, fjórum stigum frá sæti í úrslitakeppni um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.





Martin O'Neill er orðinn 66 ára gamall en hann er goðsögn hjá félaginu eftir að hafa spilað 371 leik fyrir Nottingham Forest á árunum 1971 til 1981. O'Neill varð Evrópumeistari meistaraliða með Forrest liðinu tvö ár í röð frá 1979 til 1980 og hafði orðið enskur meistari með Forrest vorið 1978.

O'Neill hefur ekki komið að félagsliði í tæp sex ár eða síðan að hann var rekinn frá Sunderland í marsmánuði 2013. Hann hóf stjóraferil sinn árið 1990 og hefur einnig stýrt liðum Wycombe Wanderers, Norwich City, Leicester City, Celtic og Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×