Handbolti

Staffan „Faxi“ Olsson: Svíþjóð er ekkert með verra lið en Frakkar, Danir og Spánverjar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Staffan "Faxi“ Olsson.
Staffan "Faxi“ Olsson. Vísir/Getty
Staffan „Faxi“ Olsson hefur eins og fleiri mikla trú á Kristjáni Andréssyni og lærsveinum hans í sænska landsliðinu á HM í handbolta í ár.

Olsson segir sænska landsliðið eiga möguleika á að verða heimsmeistari í fyrsta sinn í tuttugu ár en þeir hafa ekki unnið síðan að Bengt Johansson þjálfaði liðið í lok síðustu aldar. Aftonbladet segir frá.

Svíar hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína á HM 2019 með samtals 36 mörkum eða tólf mörkum að meðaltali í leik. Sænska landsliðið hefur fengið á sig undir 20 mörk að meðaltali í leik í þessum þremur leikjum.

Staffan Olsson er ein stóru goðsögnunum í sænskum handbolta enda hluti af gullaldarliði Svía á níunda og tíunda áratugnum. Staffan Olsson varð tvisvar sinnum heimsmeistari og fjórum sinnum Evrópumeistari með sænska landsliðinu og á alls tólf verðlaun frá stórmótum með Svíum.

Olsson skoraði alls 855 mörk í 358 landsleikjum og mörg þeirra í leikjum á móti íslenska landsliðinu.

„Eins og ég hef sagt áður þá tel ég að Svíar getið komið heim með heimsmeistaratitilinn. Svíþjóð er ekkert með verra lið en Frakkar, Danir og Spánverjar,“ sagði Staffan Olsson.

Staffan Olsson þjálfaði sjálfur sænska landsliðið með Ola Lindgren frá 2008 til 2016. Besti árangur liðsins undir hans stjórn voru silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í London 2012.

Sænska liðið fór þrisvar sinnum á heimsmeistaramótið í þjálfaratíð hans og besti árangurinn var fjórða sætið á heimamvelli 2011. Það er besti árangur Svía á HM síðan þeir fengu silfur á HM í Frakklandi 2001. Olsson var í 2001 liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×