Handbolti

Hafnaði Dönum enda draumurinn að fara með Íslandi á stórmót

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Sigvaldi Guðjónsson er að verða þekktari á Íslandi.
Sigvaldi Guðjónsson er að verða þekktari á Íslandi. vísir/tom
Sigvalda Guðjónssyni datt ekki í hug að gerast danskur landsliðsmaður þegar að það bauðst á unga aldri. Stefnan var að spila með því íslenska og nú uppsker hann eins og hann hefur sáð.

Sigvaldi var brosið eitt á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag enda er hann að upplifa drauminn að spila með Íslandi á stórmóti og stimplaði hann sig rækilega inn á móti Barein í gær. Hann er svo að læra hvernig hótellífið virkar.

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er búinn að vera rólegur dagur. Við borðuðum vel í morgun og í hádeginu, lögðum okkur aðeins og erum í heildina bara búnir að vera rólegir. Við erum bara sáttir,“ segir Sigvaldi sem fékk góðar kveðjur eftir leikinn í gær.

Sigvaldi skorar á móti Barein.vísir/getty
„Ég fékk nokkur myndbönd og nokkur skilaboð í gær. Það er ógeðslega gaman að vera með þessum hópi og á stórmóti. Þetta er bara draumur. Ég hef aldrei verið á stórmóti áður þannig að maður þarf aðeins að finna sig. Maður eyðir miklum tíma upp á herbergi en með þessum hóp er þetta ekkert mál.“

Sigvaldi Björn Gujónsson, eins og hann heitir fullu nafni, er vafalítið minnst þekkti landsliðsmaður Íslands heima á Íslandi og skildi engan undra. Þessi 24 ára gamli hornamaður hefur nefnilega ekki búið á Íslandi undanfarin fjórtán ár.

„Mamma og pabbi flytja út þegar að ég var tíu ára en þau flytja heim aftur þegar að ég var 17 ára. Handboltaþjálfarinn minn úti sagði við mig að ég þyrfti að vera áfram og því varð ég bara eftir í Danmörku. Það þekkir mig enginn á Íslandi sem er skiljanlegt þar sem ég hef aldrei spilað þar nema hjá HK þegar að ég var 8-9 ára. Það er bara gaman að fá smá athygli,“ segir Sigvaldi og brosir.

Guðmundur Guðmundsson tók sénsinn á Sigvalda.vísir/getty
Hornamaðurinn skotvissi spilar með Noregsmeisturum Elverum en hefur áður verið á mála hjá stórliði Bjerringbro í Danmörku og Aarhus. Hann hefur um langa hríð vakið athygli í Danmörku og hefði hæglega getað orðið danskur landsliðsmaður á yngri árum. Það kom bara ekki til greina.

„Ég var um tíma, 16 ára held ég, í danska landsliðshópnum. Þá fór ég heim einn veturinn og æfði aðeins með HK. Þar var einhver sem hringdi í íslenska landsliðsþjálfarann, Heimir held ég að það hafi verið, og sagði að ég yrði að fara á æfingu. Ég fór á æfingu og leyst bara vel á þetta. Ég er náttúrlega Íslendingur og það kom bara náttúrlega að velja íslenska landsliðið,“ segir Sigvaldi.

„Danski landsliðsþjálfarinn á þeim tíma var að hringja í þjálfaran minn og mig á þessum tíma. Hann vildi fá mig þá. Það var bara ekki séns,“ segir Sigvaldi Guðjónsson.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Klippa: Sigvaldi - Ég gef allt í þetta

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×