Handbolti

Brasilíumenn á leið í milliriðla eftir sigur á Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brasilíumenn fagna sigrinum í dag.
Brasilíumenn fagna sigrinum í dag. Getty/Martin Rose
Brasilía stendur vel að vígi í baráttunni um sæti í milliriðli eftir sigur á Rússlandi í A-riðli á HM í handbolta í dag, 25-23.

Eftir sigurinn eru Brasilía og Rússland nú jöfn að stigum í 3.-4. sæti en efstu þrjú liðin komast áfram í milliriðla. Sem stendur eru Frakkland og Þýskaland í efstu tveimur sætum riðilsins en þessi lið mætast í kvöld.

Úrslit dagsins þýða að ef Brasilíu tekst að leggja Suður-Kóreu að velli á morgun mun liðið fara áfram í milliriðla. Þess má geta að liðin úr A- og B-riðli sameinast í milliriðli í Köln en Ísland leikur í B-riðli.

Brasilíumenn töpuðu með aðeins tveggja marka mun fyrir Frakklandi í fyrsta leik sínum á mótinu en steinlágu svo fyrir Þýskalandi, 34-21, í næsta leik. En þeir voru fljótir að jafna sig á því og lögðu Serba að velli í gær, 24-22. Brasilía er því komið með fjögur stig eftir sigurinn á Rússlandi í dag.

Rússar eru einnig með fjögur stig í riðlinum en eiga erfiðan leik gegn Frökkum í lokaumferð riðlakeppninnar á morgun. Verði Brasilía og Rússland jöfn að stigum eftir riðlakeppnina verður Brasilía ofar í stigatöflunni með betri árangur í innbyrðisviðureign liðanna.

Brasilíumenn leiddu allan leikinn og voru með fimm marka forystu í hálfleik, 15-10. Rússar gerðu sig líklega til að jafna metin undir lok leiksins en Brasilía stóð af sér áhlaupið og fagnaði sigrinum vel og innilega í leikslok.

Haniel Langaro skoraði sex mörk fyrir Brasilíu og var markahæstur. Hjá Rússum voru Timur Dibirov og Dmitri Zhitnikov markahæstir með sex mörk hvor. Dibirov fékk rautt spjald undir lok leiks fyrir að hrinda Cesar Almeida, markverði Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×