Enski boltinn

Newcastle áfram eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Joselu fagnar markinu sem kom Newcastle yfir í framlengingunni
Joselu fagnar markinu sem kom Newcastle yfir í framlengingunni vísir/getty
Newcastle þurfti framlengingu til þess að vinna B-deildarlið Blackburn í endurteknum leik í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta.

Sean Longstaff kom Newcastle yfir strax á fyrstu mínútu leiksins og Callum Roberts var búinn að tvöfalda forystuna á 22. mínútu.

Heimamenn í Blackburn komu til baka með marki frá Adam Armstrong eftir um hálftíma leik og Darragh Lenihan jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Engin mörk komu í seinni hálfleik svo það þurfti að grípa til framlengingar.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingarinnar skoraði Joselu og kom Newcastle yfir og Ayoze Perez kláraði leikinn fyrir Newcastle í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar.

Endursýningar sýna að Joselu var rangstæður þegar hann kom Newcastle yfir en það var ekki notast við myndbandsdómgæslu í þessum leik og því stendur markið.

Blackburn hafði ekki krafta í að koma til baka og er því úr leik. Newcastle mætir Watford í úrvalsdeildarslag í fjórðu umferðinni.

C-deildarlið Shrewsbury Town er komið í fjórðu umferðina eftir endurkomu í seinni hálfleik gegn B-deildarliði Stoke.

Josh Laurent skoraði sigurmarkið á 81. mínútu eftir að Stoke komst í 2-0 í fyrri hálfleik. Shrewsbury skoraði þrjú mörk á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik og tryggði sig áfram.

Shrewsbury mætir úrvalsdeildarliði Wolves í næstu umferð.

Sheffield Wednesday vann sigur á Luton Town í Luton. Atdhe Nuhiu skoraði eina markið af stuttu færi strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.

Wednesday mætir bikarmeisturum Chelsea í fjórðu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×