Erlent

Fyrirsæta sem sagðist geta varpað ljósi á tengsl Trump við Moskvu handtekin

Samúel Karl Ólason skrifar
Anastasia Vashukevich var vísað frá Taílandi í morgun.
Anastasia Vashukevich var vísað frá Taílandi í morgun. AP/Sakchai Lalit
Fyrirsætan, Anastasia Vashukevich, var handtekin nánast um leið og hún lenti í Moskvu í dag eftir að hafa komið frá Taílandi. Hún hafði setið í fangelsi í Taílandi í sex mánuði fyrir vændi og svik.

Hún var í hópi rússneskra aðila sem voru handteknir í Taílandi fyrir að halda „kynlífsnámskeið“ fyrir rússneska ferðamenn.

Fjöldi blaðamanna biðu eftir henni á flugvellinum í Moskvu en hún var handtekin áður en hún fékk tækifæri á því að ræða við þá. Samkvæmt Washington Post stendur til að ákæra Vashukevich og þrjá aðra fyrir að laða annað fólk í vændi og gætu þau verið dæmd í allt að sex ára fangelsi.



Eiginmaður hennar segir þessar ásakanir vera tilbúnar og enginn fótur sé fyrir þeim. Alex Kirillov, sem er nokkurs konar leiðtogi fólksins sem handtekið var í Taílandi, gaf í skyn í dag að yfirvöld Rússlands hefðu mútað Taílendingum til að handataka þau.



Meðlimir hópsins játuðu í Taílandi í morgun og var þeim samstundis gert að yfirgefa landið.

Rússneski aðgerðasinninn Alexei Navalny vakti athygli á Vashukevich í fyrra þegar hann dró Instagram myndbönd hennar frá 2016 í dagsljósið. Myndböndin voru tekin af henni um borð í snekkju með auðjöfrinum Oleg Deripaska og aðstoðarforsætisráðherra Rússlands. Á myndbandinu heyrðust þeir tala saman um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Í kjölfarið hótaði ríkisstjórn Vladimir Pútín að loka á Youtube og Instagram í Rússlandi.

Sjá einnig: Rússar hóta að loka Youtube og Instagram



Deripaska starfaði á árum áður með Paul Manafort, fyrrverandi framkvæmdastjóra forsetaframboðs Trump. Hann var beittur viðskiptaþvingunum af Bandaríkjunum vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum en Repúblikanar felldu þær þvinganir að hluta til úr gildi í gær.



Sjá einnig: Hver er Paul Manafort? Hátt fall mannsins á bak við tjöldin



Skömmu eftir að Navalny birti myndband sitt var Vashukevich handtekin í Taílandi. Hún biðlaði til yfirvalda í Bandaríkjunum um hjálp og sagðist geta varpað ljósi á meint samstarf framboðs Trump og yfirvalda Rússlands. Síðan þá hefur þó ekkert komið fram til að styðja mál hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×